138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

sendiherra Bandaríkjanna.

160. mál
[18:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mér er algjörlega fyrirmunað að láta æsa mig upp í einhverjar orðahnippingar í ætt við þær sem hæstv. utanríkisráðherra var með. Hann upplýsir mig kannski um það á eftir hvað stendur í Morgunblaðinu í dag því að ég hef ekki lesið það enn þá. (ÁÞS: Sagðir þú því upp?) Ég er nú áskrifandi, virðulegi forseti, svo því sé til haga haldið. En hins vegar vitnaði ég í Eið Guðnason. Síðast þegar ég vissi var hann sendiherra og fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins, sem var nú einn af þeim fjölmörgu flokkum sem hæstv. utanríkisráðherra var í. Það er kannski ekki við hæfi að vitna í hann og ég er þá kannski sérstakur sendisveinn Eiðs Guðnasonar og annarra þeirra sem tjáðu sig um þetta mál.

Það vekur athygli mína hvað hæstv. ráðherra er gríðarlega viðkvæmur fyrir þessu. Honum varð svo mikið um að hann fór að tala um einhverja hluti og leggja út frá einhverju sem kom aldrei fram í máli mínu. Ég sagði aldrei að hæstv. utanríkisráðherra veitti einhverjar orður, hvað þá að hann kæmi að slíku. Ég spurði hins vegar hvort ekki væri eðlilegt að hæstv. ráðherra upplýsti um hvað menn hefðu gert til þess að lágmarka þann skaða sem varð af þessari uppákomu. Það vita það allir sem vilja vita að þetta var ekki heppileg uppákoma. Ég var ekki jafnstórorður og fyrrverandi félagi hæstv. utanríkisráðherra, Eiður Guðnason, alls ekki. En viðkvæmni hæstv. utanríkisráðherra er mjög áhugaverð. Hæstv. utanríkisráðherra hafði t.d. tækifæri til þess að svara skýrt spurningu tvö, hvort þetta hefði haft einhver áhrif. Það svar kom ekki, ég tók í það minnsta ekki eftir því í þeim orðaflaumi og uppnefnum sem hér komu fram.

Svar ráðherra, að koma hér upp í einhverri nauðvörn og reyna að tengja Sjálfstæðisflokkinn við þetta, kallar á miklu fleiri spurningar (Forseti hringir.) en svör. Við fáum kannski að heyra það einhvern tímann.