138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

sendiherra Bandaríkjanna.

160. mál
[18:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Auðvitað er ég viðkvæm sál. Ég er viðkvæmur fyrir þinginu. Mér finnst ekki að það eigi að misnota þingið í þeim tilgangi sem augljóslega liggur á bak við þessa spurningu og sem ég tengi beint við, eins og ég sagði, við leiðara Morgunblaðsins í dag.

Frú forseti. Hv. þingmaður hann segir að ég hafi ekki svarað spurningu tvö, þ.e. hvort ég telji sem ráðherra (Gripið fram í.) að það sem hv. þingmaður kallar uppákomu í tengslum við veitingu fálkaorðu, hafi haft áhrif á samskiptin, þ.e. þau áhrif að hér hafi ekki verið skipaður sendiherra. Ég sagði við hv. þingmann að ég teldi að a.m.k. síðan 2006 hefðu samskipti Bandaríkjanna og Íslands aldrei verið jafngóð og þau hafa verið nú síðasta árið. (Gripið fram í.) Það er ekki síst vegna þess ágæta sendiherra sem nú er horfinn héðan, Carol von Voorst. Ég upplýsti líka um það í svari mínu hérna áðan að það eru 13 ríki í Evrópu þar sem ekki hefur verið skipaður sendiherra Bandaríkjanna. Það eru meira að segja mikilvægar alþjóðastofnanir sem Bandaríkin leggja gríðarlega rækt við, eins og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu þar sem hefur verið sendiherralaust af hálfu Bandaríkjanna frá því í janúar, ef ég man rétt. Ég undirstrika þess vegna að tilefnið fyrir þessari fyrirspurn er giska skrýtið. Og hv. þingmaður virtist kunna öll svörin þegar hann kom hingað. Þá velti ég því fyrir mér: Til hvers eru menn að eyða tíma þingsins með svona spurningum?

Já, frú forseti, ég er viðkvæmur fyrir því þegar ágætir menn eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson taka þátt í svona. Mér finnst það ekki þinginu sæmandi.