138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

staðgöngumæðrun.

63. mál
[18:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. heilbrigðisráðherra, reyndar þess þriðja á rúmu ári. Fyrirspurnin varðar svokallaðar staðgöngumæðrun sem er það þegar tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið strax af hendi eftir fæðingu. Fyrir þessari aðgerð geta verið ýmsar ástæður, þetta er m.a. eitt þeirra úrræða sem konur sem af einhverjum ástæðum geta ekki eignast börn hafa gripið til. Sem dæmi má nefna sístækkandi hóp kvenna sem hafa gengið í gegnum erfiða krabbameinsmeðferðir á unga aldri og hafa með framförum í læknavísindunum blessunarlega fengið bata af þeirri meðferð en með þeim afleiðingum sem hér eru til umræðu.

Síðastliðið haust, haustið 2008, þegar ég bar þessa fyrirspurn fram í fyrsta sinn, skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, nefnd til þess að fara yfir þessi mál og skoða þau frá öllum hliðum vegna þess að þetta er snúið mál og enginn gerir lítið úr því að það eru ýmis atriði, bæði siðferðileg og lagaleg, sem þarf að skoða. Ég hef innt heilbrigðisráðherra eftir því hvað þessu nefndarstarfi líður og er orðin mjög óþreyjufull að vita hvað er þarna að gerast vegna þess að þessu nefndarstarfi þarf að fara að ljúka. Ég er í sambandi við talsverðan hóp fólks sem bíður á kantinum svo að segja, sem bíður eftir niðurstöðu frá þessari nefnd. Ég vil vekja athygli á því að þetta fólk getur ekki, eðli málsins samkvæmt, beðið endalaust eftir þessu úrræði en á meðan ekkert gerist hér hefur þetta fólk valið þá leið að fara til útlanda og gera þetta vegna þess að þetta er heimilt í ýmsum löndum með ströngum skilyrðum, mismunandi ströngum skilyrðum.

Tilgangurinn með stofnun þess hóps sem er í heilbrigðisráðuneytinu var að kortleggja málið en ekki síður til þess að skapa umræðu. Því tel ég nauðsynlegt að sleppa málinu út úr nefndinni strax. Nefndin þarf að ljúka störfum sínum. Ég held að það geti ekki verið þannig að enn séu einhver atriði órædd og óleyst, nú þarf að fara að taka af skarið, taka ákvarðanir. Á að leyfa þetta eða ekki? Ég leita eftir afstöðu hæstv. ráðherra um eftirfarandi:

Í fyrsta lagi, hvað líður starfi nefndarinnar? Í öðru lagi, hver er afstaða ráðherrans til þessa mikilvæga málaflokks? Þetta mál snýst ekki bara um heilsufarsástæður heldur er þetta líka jafnréttissjónarmið. Við getum rætt (Forseti hringir.) það síðar í umræðunni.