138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

staðgöngumæðrun.

63. mál
[18:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hennar. Mér leist nú ekkert á þetta svona framan af af því ég hafði heyrt þetta allt nánast orðrétt áður en það sem hún sagði í síðari hluta ræðu sinnar vakti hjá mér betri kenndir. Ég er ánægð að heyra að starfshópurinn ætli að skila í byrjun desember. Það er stutt í það þó svo að tíminn líði hægt í huga þeirra sem bíða eftir þessu úrræði. Ég er líka ánægð með að málstofan verði haldin vegna þess að það er nákvæmlega það sem hefur vakað fyrir mér allan tímann, að koma þessari umræðu af stað. Þegar ég segi „sleppi“ út úr ráðuneytinu þá meina ég einmitt að sleppa umræðunni út. En ég vil þó vekja athygli á því að það má ekki dragast mikið lengur. Það fólk sem ég er í sambandi við er að leggja drög að stofnun félags, hagsmunafélags, sem verður stofnað á næstu dögum og ætlar að beita sér fyrir upplýsingum og kynningu á þessum málum og beita þrýstingi til þess að koma þeim áfram. Ég veit að þetta fólk hefur ekki þolinmæði í að bíða mikið lengur og mun bara fara til útlanda og gera þetta. Það er kostnaðarsamt. Það er óréttlátt að mjög mörgu leyti vegna þess, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni þá er þetta líka jafnréttismál. Við töluðum um krabbameinssjúkar konur áðan en við getum t.d. talað um þetta mál út frá réttindabaráttu samkynhneigðra. Nú geta samkynhneigðar konur farið í glasafrjóvgun, látið frjóvga egg úr hinni konunni og eignast börn á þann hátt. Samkynhneigðir karlar geta það ekki en með staðgöngumæðraúrræðinu gætu þeir líka átt þess kost að eignast börn sem við þráum mörg hver svo mjög. (Forseti hringir.) Þetta er flókið mál en samt sem áður ekkert svo svakalega snúið vegna þess að ef hugsað er um réttindi barnsins þá er þetta ekkert miklu flóknara (Forseti hringir.) en t.d. bara ættleiðingar (Forseti hringir.) eða tæknifrjóvganir. En ég þakka fyrir svarið.