138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

umönnunarbætur.

106. mál
[18:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem hér hefur farið fram sem er brýn og þörf, enda varðar hún mannréttindi.

Ég hlýt að taka undir með hæstv. ráðherra að það er ósköp eðlilegt að kerfi sem þetta sé endurskoðað rétt eins og önnur mannanna verk og sé í sífelldri endurskoðun en leiðarstefið hvað mannréttindi varðar verður alltaf að vera skýrt, að við þjónustum fötluð börn svo sómi sé að. Það á líka við um foreldra þessara barna, til þess að börnin geti verið eins lengi heima hjá sér í því öryggi sem þar er að finna og hugsast getur.

Það takmarkaða fé sem nú er til umráða verður auðvitað að fara til þeirra sem þess þurfa. Það verður að vera leiðarstefið í þeirri endurskoðun sem fram undan er, að peningarnir fari til þeirra sem þess þurfa. Við megum hins vegar aldrei missa sjónar á því að þessar umönnunargreiðslur eru fram settar til þess að minnka þjónustuálag ríkisins. Hér er um umönnun að ræða en ekki endurgreiðslu á útlögðum kostnaði að mínu viti, fyrst og fremst gæsku, uppeldi og umönnun sem ekki verður metin til fjár. Þess vegna finnst mér við vera komin út á tiltölulega hættulega braut þegar við förum að setja verðmiða á umönnun fatlaðra barna. Ég geld varhuga við þeirri umræðu.