138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Framkvæmdasjóður fatlaðra.

109. mál
[19:04]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því — af því að það er ágætt að hafa fjárlagafrumvarpið við höndina og rifja það upp að hér erum við að tala um fjárveitingar, þar sem ég lýt ákvörðun fjárveitingavaldsins um framlög í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég held að það sé nú bara hollt fyrir þingmenn alla og hv. fyrirspyrjanda líka, sem situr í fjárlaganefnd þingsins, að velta vöngum yfir fjárlagafrumvarpinu, við getum öll gert það. Ég tek hér af handahófi að til almenns reksturs Þjóðskjalasafns Íslands eru ætlaðar 227 milljónir á þessu ári. Ég sé að til sjóvinnukennslu í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eru ætlaðar 10 milljónir og við þekkjum nú marga kostnaðarliði þar. Neytendastofa, þar eiga framlög úr ríkissjóði að nema 117 milljónum. Bara svo nokkur dæmi séu tekin af handahófi. Ég held einfaldlega — fyrir nú utan þá sérkennilegu staðreynd að mönnum finnst í lagi að ætla 16 millj. kr. í greiðslu launa fullfrískra manna sem eru stórmeistarar í skák — ég held í alvöru að það sé þörf á ákveðinni alvöruþrunginni yfirferð yfir fjárlagafrumvarpið af hálfu fjárlaganefndar og hvet menn til að taka þá umræðu. Ég skal glaður reyna að gera það besta úr því litla sem mér er skammtað af hálfu fjárveitingavaldsins, en mér finnst fullkomlega eðlilegt að kalla eftir því að Alþingi og þingmenn sýni þá sambærilega ábyrgð og aga gagnvart öðrum útgjaldaliðum. Ég held að þau verkefni sem ég þuldi upp hér af handahófi, þó að ég fari nú ekki lengra í upptalningunni, séu ekki með þeim hætti að þau skipti þjóðina og velferð okkar sem samfélags til lengri tíma litið jafnmiklu og sú grundvallarþjónusta sem kemur í minn hlut að spara, þó svo að við reynum, eins og ég rakti í fyrra svari mínu, auðvitað að spara minnst þar sem mestu skiptir í grunnþjónustu við fatlaða.

Varðandi framkvæmdasjóðinn þá býr hann, eins og fyrirspyrjandi nefnir, við mjög þröngan kost. Það var halli á sjóðnum og staða hans var neikvæð um 55 milljónir í árslok 2008. Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi eru honum ætlaðar 379,5 milljónir. Á undanförnum árum hefur mikið verið unnið í að bæta aðstöðu fatlaðra í gegnum framkvæmdasjóðinn. Sérstaklega má nefna Straumhvarfaverkefnið um úrbætur í málefnum geðfatlaðra upp á 400 milljónir tvö ár í röð en með því hefur grettistaki verið lyft í búsetumálum á því sviði. Ég hef mikinn áhuga á því að reyna að laga starfsemi þessa sjóðs og það fjármagn sem hann hefur til ráðstöfunar að breyttum aðstæðum í samfélaginu.

Eins og hv. þingmaður kannast við, þá setti ég nýlega fram hugmyndir um lausn á þeim vanda sem fjárveitingar til bygginga hjúkrunarheimila hafa verið í, vegna þess að við höfum bundið okkur við þá aðferðafræði að ávallt skuli veita fé úr ríkissjóði til bygginga á samfélagslegum verkefnum af þeim toga. Ég held að mikilvægt sé og ég er sem sagt með í undirbúningi í ráðuneytinu núna lagabreytingar sem gera Íbúðalánasjóði heimilt að lána 100% fyrir slíkum verkefnum, en það einfaldar mjög framkvæmd þeirra. Ég held að mikilvægt sé að reyna að fara svipaðar leiðir, nýjar leiðir, í fjármögnun verkefna á vegum Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Mér finnst eðlilegra að Íbúðalánasjóður fjármagni íbúðabyggingar fyrir fatlaða eins og aðra borgara í samfélaginu og þar með talin sértæk sambýli. Með því að fara slíka leið og endurskilgreina hlutverk framkvæmdasjóðsins þá mundi að mínu viti skapast ákveðið svigrúm til þess að leggja áherslu á sértæk verkefni í þágu fatlaðra og aðgerðir til að tryggja aðgengi fyrir alla. Við erum að leggja upp með hugmyndir í þessa veru núna og ég hef í hyggju og hef þegar óskað eftir samstarfi við Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið um samvinnu að þessu leyti, hvernig við getum reynt að taka á þeim búsetuvanda sem hrannast upp. Við stöndum frammi fyrir því að mjög erfitt er fyrir okkur að sinna lögbundnum skyldum hvað varðar búsetuþjónustu. Við höfum hala af vanrækslu frá góðærisárunum, líkt og á flestum öðrum sviðum í velferðarmálum, og við verðum að reyna að nýta okkur kreppuna til að vinna á þeim hala, eins vel og við mögulega getum.