138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

sérstakt fjárframlag til sparisjóða.

161. mál
[19:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnaleg og góð svör.

Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að það er ótrúlegt að upplifa þetta. Hér sátum við þingmennirnir og fleiri í stjórnarandstöðu í hv. viðskiptanefnd og vorum skammaðir blóðugum skömmum fyrir að vilja fara vandlega yfir þetta mál vegna þess að þetta átti að vera klukkutímaspursmál og átti að klárast 1. júlí og engin miskunn í því. Nú var það ekki þannig, virðulegi forseti, að við hefðum ekki verið tilbúin til þess að taka kvöldfundi og næturfundi ef svo hefði borið undir, það höfum við alltaf verið tilbúin til að gera og gert það með glöðu geði. En hér kemur hæstv. ráðherra — svo því sé til haga haldið þá talaði hann ekki fyrir málinu, þannig að það er kannski ekki á hans ábyrgð — og segir að vonandi klárist þetta um áramót. Okkur var sagt um mitt sumar að við hefðum engan tíma því við ættum að klára þetta hratt og vel, því að annars mundi allt sparisjóðakerfið fara ég veit ekki hvert (Gripið fram í.) og það væri okkur að kenna. Háttvirtir landsbyggðarþingmenn úr ýmsum flokkum sem tóku til máls fengu líka að heyra að þeir væru að þvælast fyrir sparisjóðunum í sínum byggðum.

Virðulegur forseti. Ég vona að menn læri eitthvað af þessu. Ég vona að það gerist ekki sem ég hef áhyggjur af, því það hefur nú gerst í fleiri málum — við þurftum að breyta einu máli úr viðskiptanefnd nokkrum vikum eftir að búið að samþykkja það sem lög. Það kæmi mér ekki á óvart, vegna þess að við náðum ekki að fara yfir mjög mikilvæga þætti málsins í frumvarpinu, að það komi aftur til kasta þingsins. Ég vona að svo verði ekki. Ég vona að næst þegar stjórnarandstaðan vill fara vel og vandlega og faglega yfir mál að við fáum ekki að heyra svona innantóm orð, því að þetta voru innantóm orð sem flugu hér í sumar og áttu sér enga stoð í raunveruleikanum.