138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Frú forseti. Já, formalisminn og reglurnar geta sem sagt skipt máli og eiga að skipta máli. Það gildir um mannaráðningar í öllum stofnunum sem eru fjármagnaðar af skattfé. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þar gilda skýrar reglur og þær reglur á að virða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ástæðan fyrir því að ekki var ráðið án auglýsingar í heilbrigðisráðuneytinu í minni tíð er þríþætt. Í fyrsta lagi urðu ekki miklar mannabreytingar á þessum tíma en jafnan var auglýst þegar ráðið var. Í öðru lagi þakka ég það góðri embættisfærslu þeirra sem halda utan um stjórnsýsluna í heilbrigðisráðuneytinu og í þriðja lagi er ég mjög meðvitaður um þessar reglur, ekki síst vegna starfa minna hjá BSRB. Við höfum lagt mikla áherslu á það hjá samtökum launafólks að þessar reglur séu virtar í hvívetna. Þær fóru nokkuð á flot vorið 2007. Skömmu eftir stjórnarskiptin var gerð breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands. Heimildir sem áður giltu um mannabreytingar eða tilfærslur í starfi innan einstakra stofnana voru nú látnir gilda um Stjórnarráðið allt, en þessar reglur áttu einvörðungu við um tímabundnar ráðningar. Sú regla eða sú heimild hefur iðulega verið misnotuð. Fólk er ráðið tímabundið og síðan að loknu einu ári eða tveimur sem heimilt er að ráða einstaklinginn til er starfið auglýst og beðið um reynslu í starfi. Þetta er vítahringurinn sem er í sumum tilvikum meðvitað beitt og á ekki að beita.

Það hefur verið gagnrýnt innan stjórnsýslunnar, ekki síst hjá lögreglunni. Þar hefur mönnum verið skákað á milli umdæma án auglýsinga og verið gagnrýnt en ég legg áherslu á að þetta er mjög (Forseti hringir.) verðugt umræðuefni. Um þetta gilda skýrar reglur og þær á að virða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)