138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

ráðningar án auglýsinga -- breytingar á kosningalögum o.fl.

[10:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Róberti Marshall um að ég sé í einhverjum grátkór stjórnarandstöðunnar en að sjálfsögðu fagna ég öllum góðum framkvæmdum, hvort heldur sem þær eru á Suðurlandi, Vesturlandi, Austurlandi eða Norðurlandi.

Mig langar hins vegar að velta því hér upp, af því að hann nefnir pínulítinn bút í kringum Litlu kaffistofuna, ef ég veit rétt, (RM: Sjö kílómetra.) — Sjö kílómetra, já, ég geri ekkert lítið úr því, þetta er bara mikilvæg framkvæmd og allt gott um það. (RM: … byrjunin) — Já, byrjunin, gott og vel.

Mig langar kannski að taka upp það sem hann sagði hér í lokaorðunum um að þetta væri hugsanlega verkefni sem lífeyrissjóðirnir kæmu að, mig langar aðeins að ræða það hér á Alþingi vegna þess að ég er eiginlega hættur að skilja þetta. Samtök atvinnulífsins og lífeyrissjóðirnir eru í raun og veru farin að ráðstafa hér öllum tekjum sem eiga að fara í vegagerð, uppbyggingu á spítölum og annað, í tónlistarhús og þar fram eftir götunum. Hvert hlutverk er Alþingis í þessum málum í raun og veru, vegna þess að þetta eru skuldbindandi ákvarðanir sem teknar eru úti í bæ nokkra áratugi fram í tímann? Og tónlistarhúsið kemur inn sem einhver ein lína í fjárlögunum og nú er það komið upp í 27 milljarða. Hvernig verður þetta? Ég ætla ekki að bera upp þessar spurningar, en hvað varðar þessar einkaframkvæmdir lífeyrissjóðanna, þessi göfugu verkefni, geri ég ekkert lítið úr þeim en við vitum það hér í sölum Alþingis að þær framkvæmdir mundu standa undir sér. Það fólk sem nýtir þá vegi mun þurfa að greiða full veggjöld til þess að standa undir þeim framkvæmdum.

Ég minni bara á að þegar farið var í framkvæmdir í Hvalfjarðargöngunum tók mörg ár að undirbúa það. Ég teldi mjög eðlilegt og vil beina því þá til stjórnarþingmanna að þeir sjái til þess að samningar um þessi verk verði þá kynntir fyrir Alþingi áður en skrifað verður undir þá og teknar ákvarðanir um þær skuldbindingar (Forseti hringir.) sem skuldbinda íslenska ríkið langt fram í tímann án þess að það liggi alveg klárt fyrir hvernig að þeim verður staðið.