138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

ráðningar án auglýsinga -- breytingar á kosningalögum o.fl.

[10:53]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er greinilegt að umræða síðustu daga ætlar að halda áfram hér í þingsal (Gripið fram í.) og þá undir Störfum þingsins. (Gripið fram í.) Það er auðvitað kaldhæðnislegt að stjórnarandstöðuþingmenn komi hér upp dag eftir dag í ræðustól Alþingis og kvarti beinlínis undan því að stjórnarþingmenn taki á móti og svari fyrir sig, sem eðlilegt er. Eins og ég sagði í ræðu minni í gær er það sérstaklega að ósk þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins sem skattamálin verða á dagskrá á föstudaginn undir sérstökum dagskrárlið — að þeirra ósk. Málið er þá á dagskrá og verður rætt þá.

Það er ágætt að segja frá því hér, frú forseti, af því að ég var að fá ræðuna mína sem ég flutti í gær á borðið mitt, að það er kannski til marks um framgöngu stjórnarandstöðuþingmanna hér í þingsal en ekki stjórnarliða að ég talaði í eina og hálfa mínútu en komst ekki lengra fyrir frammíköllum og hlátri. (Gripið fram í.) Tíu frammíköll komu úr þingsal frá stjórnarandstæðingum meðan ég var að reyna að svara þeirri spurningu sem til mín var beint um skattamálin.

Ég endurtek því það sem ég sagði áðan, það er kaldhæðnislegt að hv. 5. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, Guðlaugur Þór Þórðarson komi hér og kvarti beinlínis í þessum ræðustól (Gripið fram í.) undan því að stjórnarþingmenn svari fyrir sig og reyni að svara þeim spurningum sem til þeirra er beint. (Gripið fram í.)