138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

ráðningar án auglýsinga -- breytingar á kosningalögum o.fl.

[10:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það skýtur hér skökku við að stjórnarandstaðan megi ekki koma upp í þennan ræðustól og tala um skattamál sem brenna nú á þjóðinni, þjóðin er hrædd, þjóðin veit ekki hvert ríkisstjórnin er að fara með hana. Það dylst engum að þær skattatillögur sem verið er að skjóta út í fjölmiðla með vilja eður ei, hafa vakið mikið uppnám hjá þjóðinni.

Þess í stað velja hv. þingmenn Samfylkingarinnar að koma hér dag eftir dag og ræða persónukjör, eins og það sé eitthvað sem brennur nú á þjóðinni. Málið er í ákveðnum farvegi, hér hafa stjórnarþingmenn komið og upp og meira að segja krafið samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn um afstöðu hans til þjóðaratkvæðagreiðslu (Gripið fram í: … í Framsóknarflokknum.) því að eins og við vitum öll er persónukjörsfrumvarpið enn eitt frumvarpið sem lagt er fram af þessari minnihlutaríkisstjórn sem hér starfar. Ríkisstjórninni er það fullkunnugt að frumvarpið um persónukjör kemst ekki í gegnum þingið nema fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar.

Þess vegna er það alveg hreint með ólíkindum að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson skuli koma hér upp og ræða þetta enn einu sinni. Afstaða Framsóknarflokksins til persónukjörs er skýr. (BjörgvS: … landið eitt kjördæmi, jafnvægi atkvæða. Farðu rétt með.) Hér kemur hv. þingmaður og grípur fram í og hann heimtar það að landið verði eitt kjördæmi. (Gripið fram í.) Þá svara ég því til að viðkomandi (BjörgvS: Við skulum ræða það … Farðu rétt með.) þingmaður hefur aðild að þessari ríkisstjórn og er það líklega í sjálfsvald sett að leggja fram lagafrumvarp þess efnis að gera landið að einu kjördæmi. Ekki skal ég standa í vegir fyrir þingmanninum hvað það varðar. (Gripið fram í: Það er gott.)

Fyrirspurnin til hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar var um hver afstaða Framsóknarflokksins væri. Auðvitað tökum við framsóknarmenn öllum lýðræðisbótum fagnandi. (Forseti hringir.) Það er annað en hægt er að segja um aðra flokka hér á þingi. (BjörgvS: Heyr, heyr. Nema hvað …)