138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

ráðningar án auglýsinga -- breytingar á kosningalögum o.fl.

[10:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt af máli hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur að hún kærir sig ekki um að skattamál séu rædd í þessu samhengi hér á þingi. Það er búið að afmarka hálftíma til þess að ræða skattamálin í þessari viku og menn eiga bara að gjöra svo vel að þegja um þau þar fyrir utan þó að allt þjóðfélagið logi af umræðum um skattamál.

Allt í lagi, ég ætla ekki að fara djúpt í skattamálin en ég vil hins vegar minna á að ummæli hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hér í gær í sambærilegri umræðu lutu öll að því að menn ættu bara að gjöra svo vel að steinþegja um skattamálin. Ég er hins vegar svo sem ekkert hissa á því að stjórnarliðum þyki óþægilegt að ræða skattamálin þessa dagana vegna þess að nú er kominn 12. nóvember og enn þá er greinilega allt í uppnámi innan ríkisstjórnarinnar í sambandi við skattamál. Það er ekki komin nein lína í það hvernig þessi ríkisstjórn ætlar að móta tillögur sínar í skattamálum, ekki nokkur einasta lína. Hv. þm. Helgi Hjörvar orðaði það svo vel í gær þegar hann sagði að það ætti sér stað lifandi umræða í stjórnarflokkunum um skattamálin. Það er að mínu mati eðlilegt að sú lifandi umræða nái út fyrir raðir stjórnarflokkanna og eigi sér líka stað hér í þingsal. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Að öðru, hér kom hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson upp og vakti máls á jöfnun vægis atkvæða og hugmyndum um að gera landið allt að einu kjördæmi. Ég fagna því að þessi umræða komi hér inn í þingsal og tel að þar sé um að ræða mjög mikilvægt lýðræðismál, eins og hv. þingmaður sagði. Mér fannst skynsamlegt hvernig hann lagði málið upp, að það yrði hugsanlega lagt fram á þessu þingi og rætt hér og hugsanlega líka því næsta. Ég tel að það sé miklu betri nálgun en (Forseti hringir.) að ætla að fara að keyra fram grundvallarbreytingar á kosningalögum í einhverjum andarteppustíl hér á örfáum dögum.