138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:19]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Undanfarin ár hefur orðið bylting í fjar- og dreifnámi, einkum vegna tækniþróunar á þessu sviði en netið býður upp á gífurlega möguleika. Ég hef sjálf verið þeirrar gæfu aðnjótandi að stunda fjarnám, fyrst í árdaga internetsins, á námskeiði á vegum Evrópusambandsins þar sem þátttakendur voru háskólanemar frá 12 löndum og fyrirlestrarnir bárust á VHS-spólum og voru á tungumálum sem við skildum ekki, og svo nýlega í Keili í Reykjanesbæ. Tækninni hefur fleygt fram sem gerir nám af þessu tagi mun fjölbreyttara og eykur möguleikana en það er ekki síður kennsluformið sem hefur þróast. Kennsla í fjarnámi er töluvert öðruvísi en kennsla í hefðbundnu staðnámi og kennarar verða að breyta vinnulagi sínu og aðlaga kennsluna að breyttu formi. Á þessu sviði finnst mér hafa skapast mikil þekking á síðustu árum og það er að mínu mati mikilvægt að þessi geiri skólakerfisins fái að halda áfram að vaxa og dafna.

Fjar- og dreifnám eykur jafnrétti til náms því að þeir sem ekki geta stundað hefðbundið staðnám geta oft lagt stund á fjar- og dreifnám, t.d. vegna búsetu, fjölskylduaðstæðna, atvinnu eða annarra þátta.

Nú hefur sjálfræðisaldurinn verið hækkaður í 18 ár, börn eru sem sagt börn tveimur árum lengur en áður var og með þessari framlengingu æskunnar bera forráðamenn 16–18 ára ungmenna annars konar lagalega ábyrgð en áður, sem er reyndar alveg í takt við menninguna og samfélagslegar áherslur. En það getur skapað mikinn vanda hjá fjölskyldum í hinum dreifðu byggðum þar sem langt er í framhaldsskóla. Þá stendur fjölskyldan frammi fyrir því að senda unglinginn einan í burtu til náms, flytja í burtu úr byggðarlaginu, eða að unglingurinn stundi hreinlega ekki nám. Þar getur dreif- og fjarnám auðvitað bjargað miklu og staðið þannig vörð um fjölskyldur á landsbyggðinni og byggðarlagið í heild sinni.

Þá hefur verið bent á að fjar- og dreifnám er ódýrari kostur fyrir samfélagið en hefðbundið staðnám. Mér finnst því liggja í augum uppi að mikill niðurskurður á þessu sviði er í besta falli vondur bisness. (Forseti hringir.) Það þýðir auðvitað ekki að ekki megi ná fram hagræðingu, en mikilvægt er að tryggja jafnrétti á þessu sviði, fjölbreytni og virka samkeppni.