138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:28]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að þakka málshefjanda kærlega fyrir að taka upp þessa mikilvægu umræðu. Fjarnám hefur verið með ýmsu sniði mjög lengi. Sú sem hér stendur útskrifaðist fyrir rúmum 20 árum með framhaldsnám í sérkennslufræðum frá gamla Kennaraháskólanum. Það nám fór fram á Hallormsstað og tækin sem við nýttum til að skila verkefnum okkar og hafa samband voru löturpóstur og heimasímar. En síðan eru liðin mörg ár og mikil þróun hefur orðið í þessum geira samhliða tækninýjungum og umfangi þar sem við getum nú setið heima í stofu og horft á fyrirlestrana, hlustað á hljóðglærur og verið í stöðugu tölvusambandi.

Margir framhaldsskólanna eru nú þegar búnir að setja alla sína áfanga inn í fjarnámsumhverfið sem gefur mikla möguleika því að margir nemendur geta nú stundað námið algjörlega sjálfstætt og með stuðningi eftir þörfum. Fólk á öllum aldri getur tekið einn og einn áfanga algjörlega burt séð frá hvar á landinu það býr. Námsver í dreifðum byggðum eða sjálfstæðir skólar með stuðningi stærri skóla geta nýtt sér þetta fyrirkomulag og, það sem mér finnst skipta mjög miklu máli og stundum gleymast í þessari umræðu, meira tóm gefst til að sinna þeim nemendum sem þurfa þjónustu maður á mann, því að hinir geta kannski séð meira um sig sjálfir. Einstaklega spennandi nemendur með ýmsar hamlanir og bresti sem eru krefjandi verkefni hvers kennara flestra skólastofnana fá því í raun og veru miklu betri þjónustu og þannig getum við sinnt hverjum og einum betur.

Það má segja að þetta sé kannski fyrst og fremst landsbyggðarmál. Ég lít samt ekki þannig á. Auðvitað er það gott fyrir fólk að þurfa ekki að flytja að heiman en það er líka afar spennandi fyrir fólk í þéttbýlinu að geta tekið einn og einn kúrs með starfi.

Þannig finnst mér að við eigum að líta á þetta mál og þess vegna er afar mikilvægt að við skerðum þessa þjónustu ekki. Þetta er jafnréttismál, þetta er kennslufræðilegt mál og þetta getur gert skilin á milli skólastiga sveigjanlegri. Gleymum því ekki að þetta er faglegur kostur með áherslu á nám umfram kennslu og það eykur (Forseti hringir.) ábyrgð námsmanns á eigin námi.