138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[11:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðu hennar hér áðan og vil taka það fram að í grunninn er ég hlynntur þessu frumvarpi, svona efnislega. Ég hef hins vegar ákveðnar athugasemdir við það og ég tek undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði þegar hún sagði að við þyrftum að skoða hvort ekki væri mögulegt ef minni hluti þings eða ákveðið hlutfall þjóðarinnar gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæða þess að ég kem hérna upp er sú að hún minntist m.a. á Lýðræðisstofu, sem gert er ráð fyrir í frumvarpi sem þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt hér fram. Í frumvarpinu sem hæstv. forsætisráðherra mælti hér fyrir er gert ráð fyrir því að umsókn um Evrópusambandið fari í gegnum þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og það sem hér er lagt til að verði að lögum. Það vekur hins vegar furðu mína að í nefndaráliti utanríkismálanefndar er fjallað um með hvaða hætti kosningin um Evrópusambandsaðildina eigi að fara fram. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í tillögunni er gert ráð fyrir að Lýðræðisstofa fari með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og ákveði efni og orðalag þeirrar spurningar sem lögð verður fyrir kjósendur. Einnig ákveði hún kjördag fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu …“ o.s.frv. „Lýðræðisstofa setji nánari reglur um útlit og frágang kjörseðla.“

Fjallað er um Lýðræðisstofu á hálfri blaðsíðu í nefndarálitinu. Mig langaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í það hvaða skoðun hún hefur á þessu og hvernig það megi vera að þetta sé inni í nefndaráliti utanríkismálanefndar en að ekki sé minnst á það í frumvarpinu sem hún mælti hér fyrir, að þetta frumvarp, ef það verður að lögum, mundi (Forseti hringir.) verða það sem Evrópusambandsumsóknin færi í gegnum.