138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:04]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held nú reyndar að í tengslum við stjórnarskrárbreytingar þær sem ekki varð af í vor, hafi þau ákvæði sem varða þjóðaratkvæðagreiðslur ekki verið þau sem ollu hvað mestum titringi þar. Það er rétt að það sé tekið fram í þessu sambandi, það voru aðrir hlutir sem voru miklu umdeildari í því efni en einmitt þessir þættir.

Nú hefur verið ályktað um þjóðaratkvæðagreiðslur á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og flokkurinn er hlynntur því að sett verði almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. En mig langar af þessu tilefni og vegna þess að við munum fara rækilega yfir þetta mál í allsherjarnefnd, spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvers konar mál hún telur að muni verða nýtt hvað varðar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Af hvaða toga sér ráðherrann fyrir sér að þau mál geti verið?

Ég held að það skipti verulega miklu að velta því fyrir sér hvers konar mál er þarna á ferðinni. Við höfum rætt það um nokkra hríð og það hefur verið gert á vettvangi stjórnarskrárnefnda að setja inn í stjórnarskrá bindandi ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það var eitt af því sem var mjög til umræðu hér í sumar, eins og fram hefur komið varðandi ESB-umsóknina, að það var vilji til þess þegar um slíkt mál væri að ræða að það væri með öðrum hætti en ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þetta nefni ég til þess að draga fram að það getur verið gríðarlegur eðlismunur á málum sem fara í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að sé mikilvægt fyrir löggjafann núna að velta fyrir sér hvers konar mál þetta eru, hvað við ætlum að fá út úr þessu, hvort það sé efni til þess í ákveðnum tilvikum og þá hvort við ættum að velta því fyrir okkur að gera tilraun til þess að breyta stjórnarskránni að þessu leyti. Það getur vel verið að sé ekki heppilegt að hafa allt of mikið undir þegar við fjöllum um þetta. Við vitum að það er vilji til þess í mörgum flokkum að það séu bindandi ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá. Þá langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvers konar mál hún sér fyrir sér í ráðgefandi (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu.