138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:37]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að taka upp málefni dómstóla hér í dag. Þau hafa um nokkra hríð verið til umfjöllunar í ráðuneytinu og því hafa borist upplýsingar um stöðu dómstóla sem gefa tilefni til að hafa áhyggjur af. Það eru nokkrar ástæður fyrir því, í fyrsta lagi hefur dómsmálum fjölgað mjög, eins og ég mun koma inn á á eftir. Fyrirsjáanlegt er að bæði sakamálum og einkamálum muni fjölga. Ég ætla að greina Alþingi frá þeim upplýsingum sem ráðuneytinu hafa borist.

Hæstiréttur hefur með erindi, dagsettu 13. október 2009, vakið athygli ráðuneytisins og fjárlaganefndar Alþingis á því að ekki sé unnt að mæta sparnaðarkröfum þessa árs og næsta nema með því að skerða verulega starfshæfni réttarins. Fjárveitingar til réttarins hafi um langt skeið verið mjög naumar og hafi þó ýtrasta aðhalds verið gætt. Af hálfu Hæstaréttar er boðað að fækka þurfi aðstoðarmönnum enn frekar frá því sem nú er, svo og skrifstofumönnum. Verði það að veruleika fækki öðru starfsliði réttarins en hæstaréttardómurum um rúmlega fjórðung. Hæstiréttur bendir á að málum við réttinn hafi fjölgað mikið á undanförnum árum. Frá því að vera um 500 á árunum 2002–2004 eru þau nærfellt 700 á árunum 2006–2008. Fjölguninni hafi einkum verið mætt með aukinni vinnu dómara.

Hæstiréttur bendir á að við blasi stórfelld fjölgun dómsmála í landinu sem tengjast hruni bankanna með einum eða öðrum hætti. Mörg munu enda hjá Hæstarétti, málin verða af ýmsum toga og búast má við fjölda deilumála vegna uppgjörs á þrotabúum hinna föllnu banka og vegna gjaldþrotaskipta margra fyrirtækja, stórra sem smárra, sem í kjölfarið munu fylgja. Slík mál munu að líkindum skipta mörgum hundruðum ef allt er talið með og verða sum hver mjög umfangsmikil. Vegna þessara orða í erindi Hæstaréttar skal það upplýst að nú er unnið að því að sannreyna þessar upplýsingar enn frekar eftir því sem kostur er í samvinnu við dómstóla. Þá sé ljóst að látið verði reyna á gildi neyðarlaganna, erfitt sé að áætla fjölda þeirra mála en ljóst þyki að þau mál verði hvorki einföld né smá í sniðum.

Loks eru í erindi Hæstaréttar nefnd sakamál tengd bankahruninu. Fer Hæstiréttur fram á það við fjárlaganefnd að fjárveitingar til réttarins verði hækkaðar um 16 millj. kr.

Dómstólaráð hefur ritað ráðuneytinu vegna héraðsdómstólanna auk þess sem haldnir hafa verið fundir með fulltrúum dómstólaráðs í ráðuneytinu. Vakin er athygli á miklu vinnuálagi í dómstólum og fyrirsjáanleg aukning á komandi árum vegna bankahrunsins. Fjöldi málshöfðana er í farvatninu eða orðinn að veruleika. Málafjöldi í Héraðsdómi Reykjavíkur og Reykjaness er í sögulegu hámarki. 32% aukning hefur verið í þingfestum einkamálum milli ára, ef litið er til fyrstu níu mánaða ársins, og varð einnig mikil aukning á milli áranna 2007 og 2008.

Munnlega fluttum einkamálum hefur fjölgað um 29% og hafa þau aldrei verið fleiri. Þess má geta að fjöldi ágreiningsmála í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna gjaldþrota hefur þrefaldast milli áranna 2008 og 2009 og er stóraukning þeirra mála fyrirsjáanleg, ef marka má upplýsingar frá skilanefndum og slitastjórnum. En þær upplýsingar leitast ráðuneytið nú við að fá staðfestar, eins og ég kom inn á áðan.

Dómstólaráð telur að búast megi við hundruðum ágreiningsmála vegna þessa. Þá liggi fyrir að mikill fjöldi riftunarmála þrotabúa sé í farvatninu.

Þá ber hér að nefna að greiðsluaðlögunarmál sem bæst hafi við störf dómstóla eru nú á fjórða hundraðið, langmestur fjöldi er á Reykjanesi og í Reykjavík.

Í þessu ljósi hefur dómstólaráð lagt til að heimild verði veitt til að fjölga héraðsdómurum tímabundið um fimm og að jafnframt verði veitt heimild til að ráða fimm löglærða aðstoðarmenn til dómstólanna til að mæta fyrirsjáanlegu álagi.

Svo vikið sé að fjölgun sakamála skal bent á að ákærumálum frá ríkissaksóknara hefur fjölgað um 80% á tveimur árum auk þess sem vænta má aukins fjölda sakamála vegna rannsóknar hins sérstaka saksóknara. Ég ætla líka að nefna áskorun sem Lögmannafélag Íslands hefur sent mér um eflingu íslenskra dómstóla.

Virðulegi forseti. Sá vandi sem hér hefur verið lýst og hefur verið til umfjöllunar í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti er vandi sem bregðast verður við. Það er óhjákvæmilegt og rétt er að benda á að dómstólaráð hafði þegar komið með tillögu um hagræðingu í starfsemi dómstólanna með því að sameina dómstólana í einn, en það frumvarp er nú í meðförum hjá Alþingi.

Ég hef lagt til að veitt verði aukalega fjármagn til héraðsdómstóla og að héraðsdómurum verði fjölgað, auk aðstoðarmanna, og að komið verði á móts við beiðni Hæstaréttar og að þeirri aukningu útgjalda verði mætt með hækkun dómsmálagjalds.