138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:47]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég verð að halda nokkru til haga almennt séð og ekki út frá þessari gagnlegu umræðu hér heldur nokkrum biturlegum staðreyndum: Það var 216 milljarða halli á fjárlögum 2008 og stefnir í 185 milljarða halla 2009 og sama halla 2010 verði ekkert að gert. Vaxtagjöld ríkisins á næsta ári verða 100 milljarðar. Þarna erum við að súpa seyðið af efnahagsstefnu fyrri ára, óheftri frjálshyggju, einkavæðingu og helmingaskiptareglum.

Það breytir því ekki að það verður að leysa aðsteðjandi og yfirvofandi bráðavanda dómstóla. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur vakið athygli á nokkrum staðreyndum í því sambandi. Þess má vænta að frá skilanefndunum komi 400–500 mál, þar af líklega ein 40 erfið fordæmismál. Kærur vegna gjaldþrotaskipta í stórum þrotabúum verða margar. Opinberum málum mun fjölga og þá hef ég reynslu Finna fyrir mér í þeim efnum, og þeirra kreppu. Mál munu koma frá sérstökum saksóknara og þegar við höfum sammælst um að efla embætti sérstaks saksóknara fylgir það sem sjálfsögð og eðlileg krafa að efla dómstóla. Hjá því verður ekki komist. Við getum ekki sagt A og sleppt því að segja B. Loks er ljóst að einkamálum mjög að fjölga, vinnulaunamálum og öðrum slíkum.

Sérstaka athygli vek ég á stöðu Hæstaréttar. Laun hæstaréttardómara voru lækkuð stórlega og flutt á æðstu stjórn ríkisins. Það kemur fram sem sparnaður hjá forsætisráðuneytinu en síðan fá þeir til viðbótar flatan línulegan niðurskurð sem þeir verða að bera í dóminum. Hæstiréttur er tvöfalt skorinn og það er ósanngjarnt. Það kemur fram í glöggri, faglegri (Forseti hringir.) úttekt Hæstaréttar í bréfi sem hæstv. dómsmálaráðherra rakti. Ég tek undir með dómsmálaráðherra og styð hann í þessu máli heils hugar.