138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[14:00]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu sem mér hefur fundist að mestu leyti mjög málefnaleg. Ég þakka líka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þær upplýsingar sem hún kom hér með og ég held að þær varpi skýrara ljósi á þann vanda sem í dómskerfinu er. Vegna þeirra orða manna að dómskerfið hafi verið illa undir þetta búið spyr ég: Hvernig eiga menn að búa sig undir svona holskeflu mála? Menn sjá þetta ekki langt fyrir fram í tímann. Mér finnst ekki merkilegur málflutningur að tala þannig. Það kom öllum í opna skjöldu þegar þetta mikla hrun varð. Dómstólarnir gátu ekki búið sig undir það, en við getum hins vegar gert það núna. Núna getum við tekið ákvarðanir til að mæta þessum vanda. Og núna erum við einmitt í fjárlagavinnunni, núna höfum við möguleika á því að forgangsraða. Og núna eigum við að forgangsraða til dómstólanna og hlusta á Hæstarétt. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, Hæstiréttur er ekki vanur að skrifa bréf eins og hæstv. dómsmálaráðherra vitnaði í áðan og ég held að skylda okkar sé að taka þau tíðindi mjög alvarlega.

Ég tek líka undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þegar hún lýsti þeirri skoðun sinni að athuga þyrfti hvernig skerðingar á vegum dómsmálaráðuneytisins urðu í fjárlagafrumvarpinu. Ég veit að stuðningurinn hlýtur þá að vera mjög skýr um að reyna að fá það leiðrétt eins og hægt er. Við erum alltaf að líta eftir forgangsröðuninni. Ég get ekki orða bundist þótt ég sé alls ekki að gera lítið úr lýðræðisumbótum. Við þessar aðstæður er samt t.d. ætlunin að setja 400 milljónir í stjórnlagaþing. Og það eru hlutir sem hægt er að líta til, ef við viljum ekki að réttarörygginu sé stefnt í voða verðum við auðvitað að vera tilbúin til að bregðast við því. Núna er tækifærið í fjárlagavinnunni til að gera nákvæmlega það og ég heiti á alþingismenn, alla og sér í lagi þá sem hér ráða ríkjum, að líta til dómstólanna með þeim hætti að það starf verði eflt sem allra mest.