138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[14:03]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka stuðning þann sem fram hefur komið hér við málaflokka dóms- og mannréttindaráðuneytis. Ég vil í því sambandi vekja athygli á að í frumvarpi til fjárlaga eru þær tillögur ráðuneytisins að fjárveitingar til Hæstaréttar sæti 9% niðurskurði, 5% til fangelsismála og héraðsdómstólar 5% sömuleiðis. Þrátt fyrir þetta er ljóst að niðurskurðurinn er í raun of mikill vegna þessa stóraukna málafjölda og því hef ég lagt fram tillögur um hækkun dómsmálagjalda sem eiga þá að koma til móts við þann kostnaðarauka sem aukning dómara hefur í för með sér.

Þá vek ég líka athygli á því að fjölgun dómara og hækkun á dómsmálagjöldum gerist ekki nema með samþykki Alþingis, en mér heyrist nú vera kannski grundvöllur fyrir því samþykki í ljósi umræðunnar hér í dag. Ég bendi í því sambandi á að hækkun dómsmálagjalda hefur ekki orðið frá því að þau voru ákveðin árið 1991 og sýnir könnun okkar að við erum eftirbátur annarra landa hvað varðar þau gjöld þannig að ég held að óhætt sé að hækka þau eitthvað til þess að koma til móts við þennan vanda.

Ég vil síðan bara nefna það að hvað varðar dómstólana þarf líka að huga að lagaheimild til þess að kveðja til meðdómendur. Hér tel ég mikilvægt að búinn verði jafnvel til listi yfir þá sérfræðinga sem geta komið íslenska ríkinu til aðstoðar, bæði í dómstörfum og síðan í hagsmunagæslu því að það er ljóst að það verður að bregðast við á mörgum sviðum.