138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:26]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni andsvarið. Það er alveg rétt að hér er um nokkur nýmæli að ræða eins og t.d. Lýðræðisstofu sem er nýtt fyrirbæri í íslenskri lýðræðishugsun. Það er ekkert öðruvísi en það og það er svo með mörg hugtök sem hafa verið á kreiki í sölum þingsins undanfarnar vikur hvað varðar lýðræðisumbætur. Menn eru að tala um persónukjör og aðferðir við persónukjör, það er verið að tala um þjóðaratkvæðagreiðslur, aðferðir og framsetningu á þjóðaratkvæðagreiðslum. Ástæðan fyrir því m.a. að öll þessi umgjörð vefst fyrir mörgum þingmönnum er einfaldlega sú að hér hefur ekki farið fram mjög mikil umræða í gegnum áratugina um breytingar á framkvæmd lýðræðis á Íslandi. Ég verð var við það oft þegar ég ræði þessi mál að viðmælendur mínir þurfa að velta vöngum og hugsa málin af því að það hefur einfaldlega ekki farið fram nauðsynleg umræða. Nú er hún í gangi, hún er byrjuð og hún mun halda áfram og það verður einfaldlega gaman að vinna úr því sem er í gangi varðandi öll þessi mál. Hvað er persónukjör? Er það persónukjör þvert á flokka eða er að bara raða innan eins lista? Þetta eru mál sem eru ný í lýðræðisumræðunni og náttúrlega löngu tímabært að þau hafi komið fram. Nú eru þau komin fram og nú ræðum við þau og það er gott. Ég hlakka til þess.