138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu og sérstaklega fyrri hlutann. Hann fjallaði um það hvernig breytingarnar hafa orðið, um aukna kröfu um lýðræði og hvernig ákveðnir flokkar, sem ekki hafa haft þetta ofarlega á stefnuskránni, eru farnir að gefa þessu meiri gaum. Mér fannst líka fróðlegt þegar hann fjallaði um frumvarpið sem hann hyggst leggja fram og snýst um að gera landið að einu kjördæmi. Ég hlakka til að sjá það frumvarp og lesa það án þess að ég vilji gefa honum fyrirheit um að styðja það.

Mig langaði hins vegar að beina til hans tveimur spurningum. Fyrri spurningin snýst um það hver skoðun hans sé á því að ákveðinn hluti þjóðar eða þings geti kallað saman þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort hann telji brýnt að breyting verði gerð á fyrirliggjandi frumvarpi þannig að svo geti orðið. Seinni spurningin snýst um það hver hans skoðun sé á því sem fram kemur í frumvarpi Hreyfingarinnar og snýst um Lýðræðisstofu. Þetta eru í rauninni þau tvö atriði þar sem mér finnst bera hvað mest á milli í þessum tveimur frumvörpum. Hann minntist á það að skoðun hans væri sú að allsherjarnefnd ætti að reyna að sjóða saman eitt frumvarp úr þessum tveimur. Ég á sæti í allsherjarnefnd og mín skoðun og hans fara saman hvað þetta snertir. Mig langar því að fá svar hans við þessum tveimur spurningum.