138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:46]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru fínar spurningar og beint að kjarna málsins. Ég get svarað þeim báðum á sömu lund. Það er alveg eindregið skoðun mín að taka eigi inn í lög um þjóðaratkvæðagreiðslur að tiltekinn hluti þings og þjóðar geti kallað mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur alltaf verið skoðun mín. Ég hef talað fyrir því í mörg ár. Ég tel að það eigi að vera inni í frumvarpinu og í lögunum og ég vona að nefndin nái saman um útfærslu á því.

Hvað varðar Lýðræðisstofuna þá ræddum við hana aðeins fyrr í sumar, hún tengdist umræðunum um ESB-málið. Þá lýsti ég yfir stuðningi við þá hugmynd af því að mér hugnast sú nálgun. Það er ákveðin leið til að tryggja meðferð og útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslunni, spurningunum og öllu því. Það getur orðið tilefni til mikilla deilna ef menn efast um framkvæmd, spurningagerð, orðalag o.s.frv., allt þarf það að vera hafið yfir allan vafa. Ég held því að sú hugmynd geti verið mjög jákvætt innlegg í það að búa því öllu umgjörð þannig að ekki verði deilt um framkvæmd, tilhögun og útfærslu á spurningum og þjóðaratkvæðagreiðslunni sjálfri.