138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram athyglisverð umræða í dag um frumvarpið sem hér liggur fyrir og reyndar fjölmörg önnur atriði sem þingmönnum eru ofarlega í huga í sambandi við stjórnskipunarmál og tengd mál, kosningalög og fleira. Ég ætla ekki að fara langt út í þá umræðu sem ekki tengist efni þessa frumvarps en verð þó að geta þess að áhersla ríkisstjórnarinnar á ýmis mál af þessu tagi vekur mér nokkra undrun miðað við það ástand sem nú ríkir í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Ég tel að það ætti að vera forgangsverkefni ríkisstjórnar og Alþingis á þessum tíma, jafnvel eina verkefni ríkisstjórnar og Alþingis á þessum tíma, að berjast við það að koma okkur upp úr þeim efnahagslegu hremmingum sem við erum í. Það ætti að vera mál númer eitt, tvö og þrjú. Þess vegna undrar það mig nokkuð að forsætisráðherra skuli á þessum tímum, þegar örstutt er eftir af þinginu, fimm vikur af áætluðum starfstíma Alþingis á þessu hausti, koma með hvert málið á fætur öðru hér inn í þingið sem öll krefjast umræðu og yfirlegu, á tíma þegar orka þingmanna ætti að fara í aðkallandi mál eins og bara það hvernig við ætlum að láta fjárlögin ganga upp. Við vitum ekkert um það á þessum tímapunkti. Við vitum ekkert um það hvernig skattahlið fjárlaga á að vera, hvernig á að afla tekna til þess að standa straum af sameiginlegum rekstri hins opinbera. Við vitum ekkert um það, 12. nóvember. Ekki hugmynd. Útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins er líka í uppnámi. Algjörlega í uppnámi. Þetta er aðkallandi verkefni. Það eru aðkallandi verkefni sem tengjast því hvernig við ætlum að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað í landinu, tryggja sem flestum vinnu, koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja og heimila. Þetta eru hin brýnu og aðkallandi verkefni. Ég er ekki að gera lítið úr þeim málum sem hér liggja fyrir en við þurfum að skoða tímaþáttinn. Tímasetningin er í mínum huga röng.

Á þeim fáu vikum sem við eigum eftir af þingstörfum fram að jólum eigum við að einbeita okkur að efnahagsmálunum. Við eigum að einbeita okkur að því að vinna bug á fjárlagahallanum með skynsamlegum leiðum, ekki með þeim leiðum sem ríkisstjórnin virðist ætla að fara. Við eigum að setja til hliðar mál af þessu tagi á meðan við erum að grafa okkur eða moka okkur upp úr þeim vanda sem við erum í.

Sænski ráðgjafinn Mats Josefsson sem mikið var vitnað í hér á síðasta vetri, ráðgjafi ríkisstjórnar Íslands í sambandi við viðbrögð við bankahruninu, hélt ræðu á málþingi í gær og var síðan í viðtölum í fjölmiðlum. Ég veitti því athygli að í ræðu sinni gagnrýndi þessi ágæti ráðgjafi, sem nú er hættur störfum, ýmislegt í störfum stjórnvalda í sambandi við viðbrögð við bankahruninu. Ef ég má, með leyfi forseta, lesa upp stuttan kafla úr ræðu hans í lauslegri þýðingu, þá fjallar Mats Josefsson um stærðargráðuna af þeim vanda sem við eigum við að stríða og ber það saman við vanda ýmissa annarra ríkja og segir síðan, með leyfi forseta:

„Með tilliti til hins háa kostnaðar og áhrifanna á efnahagslífið hefði maður búist við að það að leysa vandamálin á fjármálamarkaði á Íslandi hefði verið efst á verkefnalista ríkisstjórnar og stjórnmálamanna. Samt sem áður virðist það ekki hafa verið raunin sem er mér ráðgáta.“ Segir Mats Josefsson.

Síðan segir hann, með leyfi forseta: „Þótt nú sé meira en ár liðið síðan Ísland lenti í þessari kreppu hefur ekki tekist að leysa mörg af þeim vandamálum sem varða fjármálamarkaðinn. Hvað veldur því er skortur á ákvarðanatöku, einkum pólitískri ákvarðanatöku.“

Ég held að þetta sé ágæt lýsing á vandanum. Það er ágæt lýsing á vandanum að ríkisstjórnin heldur sjálfri sér og raunar þinginu líka uppteknu við að ræða mál af þessu tagi, sem eru vissulega áhugaverð og merkileg en krefjast ekki úrlausna þegar í stað líkt og þau vandamál sem fólk á við að stríða, fólk sem er að missa húsnæði sitt, fólk sem er að missa atvinnuna, fólk sem er að missa fyrirtækin sín. Það eru þannig vandamál sem við eigum að vera að glíma við. Ekki hvernig við eigum að snyrta til skipuritið í stjórnkerfinu eða mál af þessu tagi.

Það hefur komið í ljós í þessari umræðu, finnst mér af hálfu þeirra sem standa á bak við þetta frumvarp, sem eru ríkisstjórnarflokkarnir, aðallega samt annar held ég, að tilgangurinn með því að fá þetta mál fram núna virðist fyrst og fremst vera að búa í haginn undir inngöngu í Evrópusambandið. Ég skil það þannig og mér hefur fundist það koma fram í umræðunni. Það er eina málið sem hefur verið vísað til, eina einstaka málið sem hefur verið vísað til sem gæti komið til þjóðaratkvæðagreiðslu út af á grundvelli þessa frumvarps, svona í náinni framtíð.

Þá velti ég því fyrir mér eins og ég gerði í andsvörum við hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur hvort ætlunin sé í raun og veru að láta fara fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvörðun sem er óheimil samkvæmt stjórnarskrá. Það er mitt mat, bara án þess að ég fari nánar út í það, að þarna sé verið að snúa hlutunum á hvolf. Það á auðvitað að byrja á því að breyta stjórnarskránni til þess að heimilt sé að ganga í Evrópusambandið, ef menn vilja það, síðan er hægt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. En að mínu mati væri fáránlegt að Alþingi tæki ákvörðun um að láta fara fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvörðun sem ekki er heimil af stjórnskipunarrétti. Mér fyndist það alveg út í bláinn. Aðrir kunna að hafa aðra skoðun en þetta er mín afstaða í þessu.

Varðandi þetta frumvarp þá er það ágætlega úr garði gert, sýnist mér. Við höfum reyndar séð þetta frumvarp áður. Það er auðvitað háð gildandi stjórnskipun að því leyti að þarna er gert ráð fyrir stjórnarskrárbundnum þjóðaratkvæðagreiðslum samkvæmt þremur tilteknum greinum stjórnarskrárinnar sem að sjálfsögðu munu leiða til bindandi niðurstöðu. Þar að auki er gert ráð fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum sem út af fyrir sig væru heimilar nú þegar ef menn kysu svo. Þarna er hins vegar ákveðinn lagarammi um það hvernig eigi að framkvæma slíkar atkvæðagreiðslur. Í sjálfu sér virðist mér að málið sé þannig úr garði gert háð því umhverfi, stjórnskipulegu umhverfi sem þetta mál er flutt í, að þetta geti nokkurn veginn gengið svo langt sem það nær.

Hins vegar verð ég að segja það sem mína skoðun að það væri auðvitað miklu heppilegra að hafa ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, almennar þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá, það væri miklu eðlilegri nálgun. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ólafar Nordal áðan þá var það allra síst það ákvæði í stjórnarskrártillögunum sem kom fram hér síðasta vor sem olli ágreiningi, allra síst. Það var að vísu bæði í sérnefnd um stjórnskipunarmál og í þinginu nokkuð vikið að mismunandi útfærslum en í grundvallaratriðum var ekki verulegur ágreiningur um að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu ætti að vera í stjórnarskrá.

Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur eru auðvitað ákveðin leið. Í löndunum í kringum okkur eru farnar mismunandi leiðir í því sambandi. Sums staðar eru þjóðaratkvæðagreiðslur bindandi en annars staðar eru þær ráðgefandi. Alls staðar hafa þær auðvitað mikil áhrif og ráða oft úrslitum mála. Þó er það nú þannig með ýmsar af þeim þjóðaratkvæðagreiðslum sem farið hafa fram um ýmsa sáttmála Evrópusambandsins að þær hafa nú fyrst og fremst haft frestunaráhrif af því verði mál eða hafi mál verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í einhverju tilteknu landi þá eru farnar einhverjar krókaleiðir til þess að koma þeim í gegn með öðrum hætti eins og Lissabon-sáttmálinn er nýlegt dæmi um. En engu að síður hafa slíkar atkvæðagreiðslur alltaf haft áhrif með einhverjum hætti.

Ég held að það sé vel þess virði fyrir allsherjarnefnd að fara yfir þetta mál en ég legg áherslu á að ekki verði miklum tíma varið í það, svo ég tali bara hreint út, að ekki verði miklum tíma varið í það á tímapunkti þar sem þingmenn ættu að vera að einbeita sér að málum sem í tíma og rúmi eru miklu meira aðkallandi og miklu brýnni.