138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:30]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst býsna merkilegt að heyra inntakið í málflutningi fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, hv. þm. Birgis Ármannssonar, um þetta mál. Hann taldi að það væri röng tímasetning að leggja fram þessi lýðræðismál núna. Þetta væru áhugaverð mál og hann notaði orðalagið að „sér fyndist þetta væri eins og snyrting á skipuriti í Stjórnarráði“. Ég verð að segja, frú forseti, (BÁ: Ég var nú að vísa til annarra mála þá.) að ég átta mig ekki á svona málflutningi og ég verð að líta svo á að þetta lýsi hug þingmannsins til þeirra lýðræðisumbóta sem hér eru kynntar. Ég get ekki skilið það öðruvísi. Hvenær er rétti tíminn, hv. þingmaður, til að ræða svona mál ef ekki núna í rústum hrunins samfélags, í rústum hruninna gilda í samfélagi okkar, að ræða hér breytta stjórnskipan, lýðræði, þjóðaratkvæðagreiðslur, persónukjör o.s.frv.?

Hv. þingmaður saknaði þess að hér færi ekki fram umræða um aðalatriðin, eins og hann orðaði það, átti þá við efnahagsmálin, fjárlögin o.s.frv. Ég vil benda hv. þingmanni á það að margoft í vetur hafa farið fram utandagskrárumræður, umræður m.a. af hálfu ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál, um greiðslujöfnun, um úrræði varðandi bílalán, verðtryggð lán fjölskyldna o.s.frv. Á morgun fer fram sérstök umræða um skattamál. Á næstunni eigum við von á mörgum frumvörpum sem lúta að gjalda- og tekjuhlið fjárlaganna og ég segi einfaldlega, hv. þingmaður, það útilokar ekki eitt annað í umræðum á Alþingi, öll mál eru jafnmerkileg og mér finnast þessar lýðræðisumbætur hér núna býsna merkilegar og get þess vegna ekki tekið undir málflutning hv. þingmanns.