138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem þingmaðurinn sagði, málinu er ekki lokið með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu því að þjóðin hefur ekki sagt síðasta orðið þegar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu er að ræða, eða skoðanakönnun á meðal þjóðarinnar eins og ég hef kallað það því að Alþingi hefur síðasta orðið. Eins og ég benti á í ræðu í dag gæti farið svo að þjóðin segði nei en Alþingi já, út af því að þingmenn greiða atkvæði einungis með sannfæringu sinni og undir þetta skrifum við eið samkvæmt stjórnarskránni. Það er svo sem ekkert nýtt að Samfylkingunni er alveg sama um stjórnarskrána, og samfylkingarfólk horfir svo sem ekkert mikið til þess eins og við þingmenn sem höfum kynnt okkur stjórnskipunarrétt vel hér á landi. Miðað við það sem hefur gengið á í ESB-umræðunni virðist það ekki vera þeirra einasta markmið, enda tekur umræddur (Forseti hringir.) Lissabon-sáttmáli gildi í næstu viku.