138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu. Hún var full af sannfæringu eins og oft vill verða hjá hv. þingmanni og það er ágætt.

Í vor voru kosningar á Íslandi og þá vann flokkur hv. þingmanns stórsigur. Hann lofaði að ganga ekki í Evrópusambandið. Hann lofaði að samþykkja ekki Icesave. Og hér er verið að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu, sem á bara að vera til málamynda. Ég vil spyrja hv. þingmann: Ef við horfum á kosningaúrslitin í vor sem einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslu — hv. þingmaður eða hans flokkur er búinn að standa að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, án skilyrða, án nokkurra skilyrða, það á ekki einu sinni að semja. Þetta er fyrirvaralaus umsókn, ekki er einu sinni minnst á að stjórnarskráin banni þetta. Þessu hefur flokkur hans staðið að og jafnframt stefnir í það að flokkur hans muni samþykkja Icesave, sem mun kosta börnin okkar og barnabörnin um alla framtíð, eða gæti gert það, óskaplegar hörmungar.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hefur hann þá trú á þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki er bindandi? Auðvitað á þjóðaratkvæðagreiðsla að vera bindandi. Ef skyldi nú koma þjóðaratkvæðagreiðsla sem segir það að þjóðin vilji með 51% meiri hluta ganga í Evrópusambandið. Ef hv. þingmaður skyldi þá vera á þingi ætlar hann þá að greiða atkvæði með því að ganga í Evrópusambandið eða ætlar hann að greiða atkvæði á móti? Getur það þá gerst að þingið hafni aðild að Evrópusambandinu þó að þjóðin hafi samþykkt hana?