138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Til hvers þjóðaratkvæðagreiðslu ef hún hefur ekkert að segja? Hvað er verið að plata fólk og láta það halda að það hafi eitthvað að segja? Það voru nefnilega gerð mikil mistök í vor að breyta ekki 79. gr. stjórnarskrárinnar fyrir kosningar þannig að þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram um stjórnarskrárbreytingar. Þá værum við í miklu betri stöðu í dag. En því miður mistókst það. Og það sem mun gerast næst, svo ég upplýsi hv. þingmann um það — því það er búið að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hann styður ríkisstjórnina sem það gerði, það er búið að sækja um aðild að Evrópusambandinu, fyrirvaralaust. Og það sem mun gerast er að það fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort við viljum ganga inn. Hún fer svona eða svona. Skiptir ekki máli því það þurfa að fara fram kosningar um breytingar á stjórnarskrá. Og þær kosningar fara fram jafnframt því sem kosið er til Alþingis. Þannig að það verða engar kosningar um stjórnarskrárbreytinguna. Ó nei, það verða kosningar um hvernig við ætlum að reka þjóðfélagið næstu fjögur árin. Bara eins og venjulega.

Það er aldrei kosið um stjórnarskrá á Íslandi, það er málið. Hv. þingmaður er hér að tala um það að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að átta sig á því að hún hefur ekkert að segja. Hann er í rauninni að gefa kjósendum langt nef, því svo þegar einhver niðurstaða kemur úr þjóðaratkvæðagreiðslu þá skiptir hún ekki máli. Þá ætlar hann að sjálfsögðu að greiða samkvæmt sannfæringu sinni eins og stjórnarskráin býður. Þetta er rökleysa, frú forseti. Þetta er algjör rökleysa. Ég held að menn ættu að fara réttu leiðina, breyta fyrst stjórnarskránni, 79. greininni, og koma síðan með þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru bindandi. Þá hlítum við þeim að sjálfsögðu.