138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu, vissulega þarft mál. Fyrir liggur annað frumvarp, komið til nefndar, um þjóðaratkvæðagreiðslu en með öðrum formerkjum.

Ég er örlítið hugsi yfir því frumvarpi sem hér er lagt fram. Fyrst og síðast er ég hugsi yfir 2. gr. vegna þess að okkur er tíðrætt um lýðræði og lýðræðishalla en 2. gr. ber vott um þann mesta lýðræðishalla sem til er í sambandi við kosningar, þ.e. kjördæmaskipanin og ójafnvægi atkvæða. Ætli menn í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þjóðin fái að segja skoðun sína á því hvort hún vilji þetta eða hitt á þjóðin sem gengur til kosninga að hafa jafnt atkvæðavægi, þá á að vera einn maður eitt atkvæði. Þess vegna get ég ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt mig við 2. gr. þessa frumvarps og vil að henni verði breytt. Ég beini þeim tilmælum til nefndarinnar að ekki verði farið í slíkar kosningar verði þær framkvæmdar á sama hátt og alþingiskosningar heldur eins og þegar gengið er til forsetakosninga. Þá er þjóðin í raun að segja það sem hún meinar og vill sem er einn maður eitt atkvæði, ekki bundið því hvort maður býr í Norðvesturkjördæmi eða Suðvesturkjördæmi þar sem vægi atkvæða er hvað sérkennilegast. Ef kalla á eftir vilja þjóðarinnar á að kalla eftir vilja þjóðarinnar með þessum hætti. Þar mun lýðræðishallinn burt. Á meðan kjósa á í þjóðaratkvæðagreiðslu miðað við gildandi lög um alþingiskosningar er þjóðin ekki að segja sitt álit. Þá er fólk í kjördæmum bundið við kjördæmaskipan að segja sitt álit og menn verða að fara að gera hér greinarmun á. Það býr ein þjóð í landinu nema við alþingiskosningar, þá búa hér nokkuð margar þjóðir eftir því hvar á landinu þær búa. Þar er lýðræðishalli og því þarf að breyta. Ég hef verið hugsi yfir þessum orðum „mikilvæg mál“, hvaða málum á að vísa til þjóðarinnar eða hvaða mál þjóðin á að geta óskað eftir að koma að í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Menn hafa rætt fjölmiðlalögin, þegar forseti Íslands synjaði undirskrift fjölmiðlalaga og vildi senda þau í þjóðaratkvæðagreiðslu af því að forsetinn taldi að það væri djúp gjá á milli þings og þjóðar. Það var djúp gjá á milli þings og þjóðar þegar ákvörðun um Kárahnjúka voru teknar. Þá þótti ekki ástæða til að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er djúp gjá á milli þings og þjóðar í Icesave-málinu. Það virðist ekki ástæða til að senda það í þjóðaratkvæðagreiðslu, en bíðum þess og skoðum og sjáum, þegar og ef það verður samþykkt, hvort sá sem ritar undir telur að þá sé djúp gjá á milli þings og þjóðar eins og forsetinn taldi í fjölmiðlamálinu og sér ástæðu til að senda það til þjóðarinnar til afgreiðslu. Hver á að meta hvað er mikilvægt mál og ekki mikilvægt mál? Hvar ætla menn að setja mörkin yfir orðið mikilvægi? Það er og mun verða stóra spurningin og ef þetta á að verða með þessum hætti verður hún alltaf pólitísk. Ég hélt að það væri það sem við ætluðum að koma í veg fyrir. Þess vegna legg ég megináherslu á að verði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu verði einn maður eitt atkvæði.

Í öðru lagi verð ég að láta þá skoðun mína í ljós að ég get ekki alveg skilið, eins og fram kom í andsvörum milli hv. þm. Péturs H. Blöndals og Ásmundar Daða Einarssonar, að ef við sendum þau skilaboð frá Alþingi að þjóðin eigi að vera ráðgefandi eða þjóðin eigi að ráða — við erum að senda mál til þjóðarinnar vegna þess að við óskum eftir því að þjóðin segi álit sitt á málinu, þjóðin greiði atkvæði um það og segi já eða nei. Ef meiri hluti þjóðarinnar segir já hlýtur það að heita að lýðræðislega hafi verið staðið að málum en þá ætlar Alþingi að beita fyrir sig eiðnum, að alþingismenn fari alltaf eftir sannfæringu sinni og segi hugsanlega nei. Þetta togast algerlega á. Áður en menn setja lög verða menn að skoða alla þessa þætti (PHB: Þetta er rökleysa.) vegna þess að það getur ekki gengið, frú forseti, að þjóðin óski eftir því að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál og Alþingi geti með þingsályktunartillögu, eins og hér er sagt, samþykkt að svo verði gert og farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þjóðin segi já en af því að þingmenn eru ekki sammála þjóðinni munu þeir segja nei og hugsanlega fella það mál sem þjóðin sagði já við.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal. Það er einhver rökleysa þarna á ferðinni sem verður að skoða og fara yfir vegna þess að annars er þjóðaratkvæðagreiðslan í mínum huga skrípaleikur. Ég hef ekki trú á því að einn einasti þingmaður hér inni líti svo á eða vilji líta svo á en fram hjá þessum sjónarmiðum verður ekki litið. Þau verður að skoða og það verður að fara í gegnum þessa þætti alla. Ég tek það fram, frú forseti, að ég tel afar mikilvægt að hægt sé að halda þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er samt sem áður mín skoðun að þær eigi að vera bindandi en ekki ráðgefandi. Mér finnst annað líkjast einhvers konar skoðanakönnun sem kostar þingið og þjóð um 160 millj. til að fá skoðun þjóðarinnar á einhverju tilteknu máli sem þingmenn munu síðan fara með á sinn tiltekna hátt. Það er eitthvað ekki alveg að gera sig í þessari umræðu, frú forseti.

Ég tek jafnframt undir það sem fram hefur komið hér að mikilvægt er að minni hluti Alþingis geti með einhverjum hætti, ekki knúið fram eins og hér hefur verið rætt um heldur gefið tækifæri til að óska eftir atkvæðagreiðslu um tiltekin mikilvæg mál og þá verður þingið að skoða og ræða hvað eru mikilvæg mál. Ég er hins vegar andsnúin því að þjóðaratkvæðagreiðslur almennt séu samhliða öðrum kosningum vegna þess að ég tel að það skekki alla umræðu um þær kosningar sem hefur verið boðað til, hvort heldur það eru kosningar til sveitarstjórna, Alþingis eða forsetakjör, að koma inn með þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða. Það skekkir þá umræðu sem fer fram í kringum þær kosningar og ég er ekki sátt við það.

Frú forseti. Það eru ýmis álitamál. Við þurfum að taka þau til gagngerðrar skoðunar en ef við ætlum í þjóðaratkvæðagreiðslu legg ég áherslu á 2. gr., að það sé einn maður eitt atkvæði. Þjóðinni verði ekki skipt upp í slíkri atkvæðagreiðslu eftir kjördæmum vegna þess að miðað við kjördæmaskipanina búa hér margar þjóðir í mörgum kjördæmum.