138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:24]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu og málefnalega. Ég tek undir margt af því sem hún nefnir og ég held að nefndin þurfi að skoða þetta allt þegar hún fer yfir þessi tvö frumvörp. Ég tek fram að hendur nefndarinnar eru á engan hátt bundnar í þeim efnum eins og kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag.

Mig langar í fyrsta lagi að beina einni spurningu til hv. þingmanns: Er hún almennt fylgjandi því að 10% eða 15% þjóðarinnar eða ákveðinn hluti þjóðarinnar geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál? Í öðru lagi, af því að henni er tíðrætt um einn maður eitt atkvæði og ég hef nefnt fyrr í dag þingsályktunartillögu sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hyggst leggja fram um að gera landið að einu kjördæmi og einn maður eitt atkvæði, langar mig að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að hún hefur jafnan tilheyrt Evrópusambandsarmi Sjálfstæðisflokksins og greiddi atkvæði með aðildarumsókn að Evrópusambandinu: Mun hún mælast til þess ef við göngum í Evrópusambandið að það verði líka þannig að þingmannavægi verði metið út frá mannfjölda og þingmannafjöldi Íslendinga fari þá úr kannski sex og niður í hálfan?