138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og eins Ásmundi Einari Daðasyni fyrir andsvör hans. Ég var einmitt að velta þessu sama fyrir mér, hvernig hv. þingmaður sæi lýðræðishallann innan Evrópusambandsins þegar við erum búin að ganga þá leið sem ákveðinn hluti þingsins vill að við göngum. Ef þær hugmyndir sem haldið er á lofti um einn mann og eitt atkvæði og allt þetta jafnræði sem verið er að tala um er ekki hætta á því að við munum gjalda fyrir það í þessu stóra sambandi sem þetta blessaða Evrópusamband er?

Einnig langar mig að velta því upp í ljósi þeirra orða sem hv. þingmaður lét falla um að bara ein þjóð byggi í landinu sem ég er algjörlega sammála henni um, það er bara ein þjóð í þessu landi, hvort hún gæti tekið undir að ef sú leið er farin að jafna atkvæðarétt manna á Íslandi sé um leið nauðsynlegt að jafna aðrar aðstæður líka, jafna t.d. aðgang að stjórnsýslu, flytja hugsanlega helming stjórnsýslunnar eða í réttu hlutfalli út á land eða út í þau kjördæmi sem eru lengra frá stjórnsýslunni. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að mér fyndist jafnvel koma til greina að höfuðborgin væri hreinlega án þingmanna í ljósi þess að hér er öll stjórnsýslan. Við höfum heldur betur fengið að finna fyrir framkvæmdarvaldinu undanfarnar vikur og mánuði þannig að ég velti fyrir mér hvort það sé ástæða til að skoða þessa hluti. Meginspurningin er sem sagt þessi: Ef við þurfum að fara þá leið að fara í „einn maður, eitt atkvæði“ getur hún verið sammála mér um að á sama tíma þurfi að jafna aðgang landsmanna að stjórnsýslu og dreifa þeim opinberu störfum sem fylgja henni?