138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:05]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þriðja atriðið sem ég náði ekki að nefna hérna áðan og er mikilvægt er hvort það eigi að vera lágmarksþátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslum til að þær teljist gildar. Svoleiðis ákvæði á vissulega einhvern rétt á sér, en það kom t.d. skýrt fram í máli hæstv. forsætisráðherra hér fyrr í dag að ef slík ákvæði eru inni geta menn haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar með því einfaldlega að sitja heima. Og það er hin hliðin á málinu sem ég er sammála forsætisráðherra um og ég tel sjálfur að sé óásættanlegt, að menn geti haft afgerandi áhrif á niðurstöðu mála með því að vera ekki þátttakendur í þeim. Þess vegna tel ég, og t.d. við í Hreyfingunni, að ekki eigi að skilgreina eitthvert tiltekið lágmark til að atkvæðagreiðslan sé gild því að það lágmark er heldur aldrei annað en einhver tala sem dregin er upp úr hatti og mjög erfitt að færa rök fyrir hver hún ætti að vera.