138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ítarlega framsöguræðu fyrir þessu máli. Þetta er ekki alveg ókunnugt mál, það kom reyndar í nokkuð annarri mynd fyrir þingið nú í vor. Þá var gert ráð fyrir töluvert umfangsmeira stjórnlagaþingi með stærra hlutverk og meiri völd en það sem hér liggur fyrir og forsætisráðherra gerði grein fyrir skýringum á því. Ég leyfi mér að halda því fram við yfirlestur frumvarpsins að kostnaðaráætlun fjármálaráðuneytisins sé afar varkár en það er atriði sem auðvitað verður skoðað í nefndarstarfinu.

Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra tveggja spurninga nú við upphaf þessarar umræðu. Í fyrsta lagi velti ég fyrir mér hvers vegna forsætisráðherra leggur til þann verkefnalista sem stjórnlagaþinginu er falinn og birtist í 3. gr. frumvarpsins. Samræmist það markmiðum um að stjórnlagaþingið starfi alveg sjálfstætt og móti sér sín viðfangsefni sjálft? Ég minni á að í 1. gr. er talað um að verkefnið sé að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og ég vil bæta því við að þegar stjórnarskrármál hafa verið til umræðu hafa komið athugasemdir bæði frá almenningi, félagasamtökum og fjölmörgum öðrum um marga aðra þætti stjórnarskrárinnar en þá sem hér eru tilgreindir. Nú er mér ljóst að stjórnlagaþing hefur heimild til þess að taka fleiri þætti til umfjöllunar (Forseti hringir.) en ég velti fyrir mér hvers vegna þetta er ekki opið. Ég verð að koma að síðari spurningunni á eftir.