138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær fyrirspurnir sem hann hefur lagt fram. Hv. þingmaður nefndi kostnaðaráætlunina. Ég held að það hafi verið farið mjög vandlega yfir hana og þetta sé raunsætt mat, enda hefur umfang þingsins breyst verulega eins og hv. þingmaður nefndi sjálfur. Við höfum fækkað verulega þeim sem eiga að taka þátt í þessu þingi, auk þess sem tíminn sem ætlaður er til þinghaldsins er miklu styttri en ráð var fyrir gert í upphafi.

Ég get út af fyrir sig sagt hér og nú, þótt það hafi ekki komið fram í framsögu minni, að ég hefði talið miklu æskilegra að stjórnlagaþing starfaði þannig að það sem stjórnlagaþing ákvæði væri bindandi en kæmi ekki aftur til meðferðar í þinginu til sérstakrar ákvörðunar. Við því er þó ekkert að gera, um það náðist ekki samstaða. Ef þessu máli seinkar á þingi og við verðum komin nær kosningum má vel vera að menn vilji skoða hvort þetta eigi þá að vera bindandi af því að hér eru gefnir tveir kostir, að kosið verði til þessa þings nú við næstu sveitarstjórnarkosningar eða fyrir þingkosningar.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þau viðfangsefni í 3. gr. sem þarna eru talin upp. Ég held að tekið sé á stærstu þáttum stjórnskipunarinnar í þessu sem hér er nefnt. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta þing á að starfa sjálfstætt. Það getur tekið hvaða efni sem það vill sem tengist stjórnarskránni, þótt í 3. gr. sé getið sérstaklega um helstu viðfangsefni sem augljóst er eðli málsins samkvæmt að stjórnlagaþing muni taka til umfjöllunar og fást við.