138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Ég skil það svo að í 3. gr. felist ákveðin tilmæli, ég vil nú kannski ekki segja fyrirmæli frá Alþingi, verði þetta að lögum, til stjórnlagaþingsins um að þessi atriði verði tekin sérstaklega fyrir. Ég ítreka það sem ég sagði að ég hygg að þegar stjórnlagaþing hefur verið í umræðunni manna á meðal úti í þjóðfélaginu hafi flestir eða margir alla vega þá hugmynd að stjórnlagaþing eigi að hafa það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána í heild.

Spurningin er: Hvers vegna leggur hæstv. forsætisráðherra áherslu á að sérstakt stjórnlagaþing endurskoði suma þætti stjórnarskrárinnar en aðrir þættir stjórnarskrárinnar séu ekki þar inni heldur eigi þá væntanlega að fara sína hefðbundnu leið í gegnum Alþingi? Hvað veldur því að áherslan er á að sumir þættir fari inn í stjórnlagaþing en aðrir þættir eigi að ákvarðast á Alþingi?

Ég velti því líka fyrir mér hvort inni í þeim viðfangsefnum sem stjórnlagaþing hefur, sem því er beint að og talin eru upp sem viðfangsefni þess, séu ekki einmitt atriði sem nú þegar eru til umfjöllunar hér í þinginu eins og upptaka svokallaðs persónukjörs í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum, þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira þess háttar. Ég velti einnig fyrir mér hvort hæstv. forsætisráðherra sjái fyrir sér að stjórnlagaþing hafi einhverju hlutverki að gegna við að ræða breytingar á stjórnarskránni ef til aðildar að Evrópusambandinu kemur.