138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:51]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að hv. þm. Þór Saari er í grunninn mjög sáttur við að þetta frumvarp sé komið fram. Hann telur að það sé í anda áherslna Hreyfingarinnar í lýðræðismálum og er það vel. Ég hjó hins vegar eftir einu í máli hans og það er það að hann hafði ýmislegt við það að athuga hvernig ætti að kjósa fulltrúa á þetta þing. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að kjósa eigi minnst 25 og mest 31 fulltrúa og það fari þannig fram að fólk bjóði sig fram og kosið sé til stjórnlagaþings samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum. Hv. þingmaður taldi að frambjóðendur mundu fyrst og fremst samanstanda af frægum einstaklingum, poppstjörnum, íþróttafólki og fegurðardrottningum, ef ég hef skilið hann rétt.

Auðvitað má alltaf velta því fyrir sér hvernig best er að velja einstaklinga á stjórnlagaþing. Ég hins vegar held að það skipti afar miklu máli að þeir einstaklingar sem þarna veljast inn, séu fólk sem hafi áhuga, tíma og nennu til þess að sinna starfi sínu. Þess vegna er ég ekki viss um að rétt sé að fara þá leið sem hv. þingmaður nefndi, að taka einfaldlega 600 manns, eða hvað það var sem hann nefndi, úr þjóðskrá samkvæmt handahófskenndu úrtaki, og því fólki væri boðið að vera á stjórnlagaþingi. Ég held að ganga verði úr skugga um það að áhugi búi að baki hjá viðkomandi einstaklingum. Það verður að vera hægt að treysta því að það fólk sem fer á stjórnlagaþingið hafi brennandi áhuga á viðfangsefninu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann geti ekki séð fyrir sér að hægt væri að útfæra kosningafyrirkomulagið með einhverjum þeim hætti sem þá kæmi í veg fyrir ásókn þessa fræga fólks sem hv. þingmaður nefndi.