138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:58]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er þörf umræða og það frumvarp sem hér liggur fyrir er þarft og tvímælalaust framfaramál. Ég vil segja í upphafi máls míns og tek að því leyti til undir með síðasta ræðumanni, að þær athugasemdir og ábendingar sem ég kem hér á framfæri við frumvarpið, ber hvorki að skoða sem andstöðu við það né gagnrýni, nema þá í besta skilningi þess orðs, ábendingar fram settar af góðum hug. En það er hins vegar rétt sem fram hefur komið í umræðum síðustu daga, varðandi stjórnlagaþing — þetta mál hefur borið á góma í samhengi við ýmislegt — að málið hefur þynnst nokkuð út frá því að það kom fyrst fram. Talað er um færri þingmenn á stjórnlagaþingi, skemmri starfstíma og minna valdsvið. Í sjálfu sér geri ég ekki athugasemdir við fjölda þingmanna eða starfstímann sem lagður er til í frumvarpinu, mig langar hins vegar að ræða hér ákveðið grundvallaratriði sem lýtur að valdsviði stjórnlagaþings.

Þess vegna langar mig að rifja aðeins upp samhengið við þá umræðu og þær væntingar sem spruttu upp utan Alþingis eftir bankahrunið fyrir ári. Þá gerðist það í raun og veru, eins og við vitum, að þegar eftir hrunið varð uppi mikill trúnaðarbrestur í samfélaginu og hreyfing reis upp á tiltölulega skömmum tíma, hópur Íslendinga sem taldi mjög brýnt að hafist yrði handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðisins og grundvallarstofnunum samfélagsins. Þessi hópur held ég að hafi í raun og veru verið málsvari mun stærri hreyfingar, óformlegrar, kannski þögullar hreyfingar, sem þráði nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur kannski um aldir lagt rækt við, gilda á borð við heiðarleika, samhjálp, jöfnuð, ábyrgð og fleira af þeim toga.

Efnt var til undirskriftasöfnunar undir merkjum Nýs lýðveldis á netinu og á einni viku frá því síðan var sett upp, skrifuðu 7.000 undir áskorun til stjórnvalda um að stjórnlagaþingi yrði komið á. Síðan sprakk ríkisstjórnin og þing var rofið og þar með fór málið eiginlega algjörlega í nýjan farveg og sá þrýstingur sem þarna var orðinn hjaðnaði um hríð enda kom fljótlega fram nýtt frumvarp um stjórnlagaþing. Það frumvarp er hins vegar ekki það sem við fjöllum um hér í dag, það hefur tekið talsverðum breytingum. En í þeirri áskorun, sem þúsundir manna lögðu nafn sitt við í byrjun þessa árs, var skorað á Alþingi að samþykkja stjórnarskipunarlög um boðun til stjórnlagaþings, nýs þjóðfundar, og að forseti Íslands skyldi boða til þingsins fulltrúa sem kosnir yrðu ásamt varafulltrúum fyrir hvern þeirra í almennum kosningum, sem haldnar skyldu innan tveggja mánaða frá síðari samþykkt frumvarps til stjórnskipunarlaga. Í þessari áskorun var gert ráð fyrir að kjörgengi til stjórnlagaþings hefðu allir sem uppfylla skilyrði um kosningarrétt og kjörgengi, 34. gr. stjórnarskrárinnar, nema forseti Íslands, alþingismenn og ráðherrar, og að í þessum kosningum yrði landið allt eitt kjördæmi. Þarna var gert ráð fyrir því að stjórnlagaþingi yrði falið að semja nýja stjórnarskrá þar sem lagður yrði grunnur að nýju lýðveldi, með virku og endurnýjuðu lýðræði og í því fælist m.a. endurskoðun á kosningareglum til Alþingis og kjördæmaskipan og skýr aðgreining milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómstóla. Síðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána yrði þing rofið og efnt til nýrra alþingiskosninga á grundvelli hennar.

Mér finnst rétt að rifja þetta upp, vegna þess að á sínum tíma lutu væntingarnar að raunverulegu stjórnarskrárvaldi í höndum stjórnlagaþings. Það sem við ræðum nú er ráðgefandi stjórnlagaþing og í raun og veru er það allt annar hlutur, því ef við gefum okkur að þetta yrði nú að veruleika, þá er ekki víst að gamli skrípaleikurinn byrji ekki upp á nýtt þegar tillögur stjórnlagaþings koma fyrir Alþingi til samþykktar. Ég kalla það skrípaleik sem gerðist hér t.d. á þarsíðasta þingi í umræðum um þetta mál, þegar það var tafið og lenti í útideyfu.

Þannig að í raun og veru hefur Alþingi að þessu frumvarpi fullkomlega samþykktu tögl og hagldir í málinu og þar með er í raun og veru ekki komið þetta nýja upphaf, þessar nýju leikreglur sem við þráðum svo mjög að yrðu settar með raunverulegu stjórnlagavaldi stjórnlagaþings. Ég veit að mótrökin gegn þessu eru þau að ef við kjósum stjórnlagaþing með raunverulegu stjórnlagavaldi sem Alþingi getur ekki hnekkt kostar það nokkrar kosningar. En ég vil benda á að á næsta ári eru sveitarstjórnarkosningar og innan tíðar verða kosningar um Evrópusambandsaðild, þetta eru tvær þjóðaratkvæðagreiðslur sem mætti nýta í þetta ferli. Síðan þyrfti þingrof og nýjar kosningar á grundvelli nýrrar stjórnarskrár, sem gæti gerst í tengslum við næstu alþingiskosningar. Í raun og veru þyrfti ekki að fara í mikinn aukinn tilkostnað við þær kosningar sem þarf til að lögleiða nýja stjórnarskrá ef menn hafa biðlund og gefa sér tíma til að vinna málið vel.

Þessu vil ég nú bara koma á framfæri að það er grundvallarmunur annars vegar á ráðgefandi stjórnlagaþingi, eins og því sem hér er lagt til, og hins vegar stjórnlagaþingi eins og upphaflega var um það beðið af almenningi á Íslandi, sem ég held að hafi raunverulega þráð og þurfi enn á því að halda að nýr grunnur verði lagður að leikreglum lýðræðisins.