138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar bankakerfið hrundi fyrir ári síðan hrundi um leið tiltrú fólks á stjórnkerfið og stjórnmálamenn. Kannski er líkt á komið með hvoru tveggja, bankakerfinu og stjórnkerfinu, að stærðin og yfirbyggingin var orðin of mikil og þung fyrir undirstöðuna. Lengi hefur verið talað um nauðsyn þess að endurskoða stjórnarskrá landsins. Í greinargerð með frumvarpinu sem nú er fjallað um er sögð saga þeirra tilrauna, ef svo má að orði komast, sem gerðar hafa verið til að endurskoða stjórnarskrána sem að stofni til má rekja til Danmarks riges grundlov sem sett voru árið 1849.

Ég ætla að leyfa mér að segja að sagan af öllum stjórnarskrárnefndunum sem settar hafa verið og starfað hafa á lýðveldistímanum sýnir vanmátt stjórnmálamanna til að ljúka því löngu tímabæra verki að endurskoða stjórnarskrána alla. Einungis þrír kaflar stjórnarskrárinnar frá 1944 hafa verið endurskoðaðir rækilega, III. kaflinn um þingkosningar, sem kannski er ekki vanþörf á að endurskoða aftur, IV. kaflinn um störf Alþingis og VII. kaflinn um mannréttindi.

Það er nauðsynlegt að færa stjórnarskrána alla til nútímans og því ber að fagna því að gerð er tillaga um stjórnlagaþing sem í raun þýðir að taka þetta veigamikla hlutverk frá stjórnmálamönnum því í raun eigum við ekki annað skilið. Sagan af öllum stjórnarskrárnefndunum segir það.

Auðvitað eru áhöld um ýmislegt sem varðar stjórnlagaþing, hvernig á að velja til þess, hve margir fulltrúar eiga að vera, hversu lengi þingið á að starfa og ýmis önnur atriði. Ég ætla að vona að okkur auðnist að komast að samkomulagi um þessi atriði sem fyrst.

Ég veit að sumir sjá mikla annmarka á því að stjórnlagaþing verði einungis það sem kallað er ráðgefandi eða leiðbeinandi og að Alþingi eigi lokaorðið um þá tillögu að stjórnarskrá sem kosið verður um. Ég held samt að þetta sé aukaatriði og yrði reyndar nokkur prófsteinn á okkur í þessum sal. Sannarlega tel ég að það þyrfti svo sterk rök til að hunsa vilja stjórnlagaþings að ég tel það varla áhyggjuefni.

Umfang þess stjórnlagaþings sem hér er til umræðu er allnokkru minna en tillaga var gerð um á síðasta Alþingi. Það er fyrst og fremst vegna þess hversu kostnaðarsamt þingið þótti vera miðað við þá tillögu og ljóst er af umræðu í dag að sumum þykir enn þá allmikið í lagt í þessu frumvarpi. Mér finnst þetta nokkuð umhugsunarvert vegna þess að það er ljóst að lýðræðið kostar og það hefur sannarlega sýnt sig að það er kostnaðarsamt að hafa gamaldagsstjórnkerfi eins og við búum við. Ljóst er að frumvarpið verður ítarlega rætt í allsherjarnefnd. Ég vil t.d. nefna fulltrúafjöldann, 25–31, sem lagt er til að sé þjóðkjörinn. Ég velti því alvarlega fyrir mér hvort ekki gæti verið rétt að einhver hluti fulltrúa á stjórnlagaþingi verði valinn með slembiúrtaki því líklegt er að sá hópur sem byði sig fram til að takast á við þetta verkefni gæti orðið nokkur einsleitur og það hlýtur að vera markmið stjórnlagaþings að það endurspegli sem flest viðhorf.

En viðfangsefni stjórnlagaþingsins sem getið er um í 3. gr. fagna ég sérstaklega síðustu setningunni sem segir, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaþing getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en getið er í 1. mgr.“

Þetta þýðir í raun að stjórnlagaþingið ákveður sjálft hvað það fjallar um.

Þá vil ég nefna það sem sagt er í 8. gr. frumvarpsins um framboð. Þar er lagt til að framboði skuli fylgja minnst 30 og mest 40 meðmælendur. Ekkert er athugavert við það. Það er heldur ekkert athugavert við að það komi fram í hvaða sveitarfélagi meðmælendurnir eru búsettir. Ég sé hins vegar ekki að neinu máli skipti hver staða meðmælendanna er. Mér finnst sú tillaga eiginlega endurspegla gamaldags hugsunarhátt um að enginn sé maður með mönnum nema hann sé læknir, lögfræðingur eða prestur.

Þá hef ég einnig nokkrar efasemdir um þörf þess að tveir vottar staðfesti yfirlýsingu frá hverjum meðmælanda. Það er orðið ansi mikið blek sem fer í allar þær undirskriftir og miklu skiptir að gera framboð ekki svo þungt í vöfum að það séu einungis þeir sem hafa aðgang að félagasamtökum, hvort heldur það eru íþróttafélög, stjórnmálaflokkar eða Junior Chamber, sem geta án stórkostlegra óþæginda gefið kost á sér til að vinna þetta áríðandi verkefni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að kosið verði til þingsins með persónukjöri, þ.e. að nöfnum frambjóðenda verði raðað í stafrófsröð og kjósendur forgangsraði þeim þannig. Ég fagna því að sjálfsögðu.

Loks eru settar fram nokkuð ítarlegar reglur um skipulag og starfshætti stjórnlagaþings og um undirbúning og meðferð frumvarps til stjórnskipunarlaga, auk þess sem lagt er til ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir að sett verði á stofn nefnd sem ætlað er að undirbúa stofnanastarfsemi þingsins. Um allt þetta verður fjallað í allsherjarnefnd, vonandi þjóðinni til heilla.