138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

ummæli Mats Josefssons.

[10:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ráðgjafi ríkisstjórnarinnar um endurreisn bankanna kvaddi sér hljóðs á dögunum, gagnrýndi stjórnvöld harðlega fyrir það hversu slælega þau hefðu staðið sig í að endurreisa bankakerfið sem byggir á því að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Við í stjórnarandstöðunni á þingi höfum gagnrýnt ríkisstjórnina mjög harðlega í þessum efnum enda eru ærin efni til, en þegar sérstakur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í því að endurreisa bankana kemur fram með stór orð á hendur ríkisstjórninni um það hversu slælega það verk hefur gengið kemur það úr hörðustu átt. Það er því eðlilegt að við spyrjum hæstv. forsætisráðherra hvernig hún ætli að gera þar bragarbót á, hraða málum, hraða uppbyggingu bankakerfisins og þannig íslensks efnahagslífs vegna þess að helsti ráðgjafi ríkisstjórnarinnar hefur ákveðið að gagnrýna í fjölmiðlum slæleg vinnubrögð stjórnarinnar hvað þetta varðar.

Það lá ekkert lítið á í sumar að afgreiða lög um sparisjóðina á þeim tíma, það þurfti að klára það fyrir ákveðin mánaðamót, júní eða júlí, ég man það ekki í svipinn, og ég spyr líka forsætisráðherrann: Hvað hefur gerst síðan þá í málefnum sparisjóðanna? Ekki neitt. Atvinnulífið bíður og heimilin bíða. Hvað er til ráða þegar aðalráðgjafi ríkisstjórnarinnar í því að endurreisa bankakerfið hefur komið fram og gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega? Hvað sér hæstv. forsætisráðherra að hægt sé að gera til að bæta úr þessari stöðu? Ég spyr líka hæstv. ráðherra vegna þess að samráð við okkur í stjórnarandstöðunni hefur ekki verið neitt þegar kemur að þessum málum: Er ekki kominn tími til að við förum að ræða saman á Alþingi um þessi mál, vinna saman, heldur en að ríkisstjórnin sé með eitthvert sóló sem hefur þá leitt til þess að helsti ráðgjafi stjórnarinnar í (Forseti hringir.) endurreisn bankanna gagnrýnir hana harðlega á opinberum vettvangi?