138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

fjárlagagerð.

[10:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör. Það er alltaf þægilegt og gott að vita til þess að maður getur orðið að liði við það að upplýsa ákveðna hluti sem betur mega ganga. Það ber að virða þær þakkir sem því eru sýndar.

Til frekari upplýsinga skal upplýst að við vorum á fundi í fjárlaganefnd í gær í viðtölum við stofnanir þar sem m.a. fulltrúar Atvinnuleysistryggingasjóðs og Vinnumálastofnunar komu inn til okkar og boðuðu sambærilegt erindi frá félagsmálaráðuneytinu um fjárveitingar. Það sem var sýnu alvarlegra var að það var upplýst þar fyrir fjárlaganefndinni að ríkisstofnanir eru að vinna að framkvæmd hagræðingarkröfu sem gerð hefur verið á það með því að segja upp hlutastarfi starfsmanna upp á 7,5%. Vinnan er áfram 100% en Atvinnuleysistryggingasjóður er látinn dekka restina. Þetta heitir að færa úr einum vasa í annan og er verklag sem ég bið hæstv. fjármálaráðherra að beita sér fyrir að verði stöðvað þegar í stað.