138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

afskriftir skulda.

[10:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmanni eru auðvitað kunnar þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið bæði fyrr og nú í haust varðandi skuldavanda heimilanna, bæði hækkun vaxtabóta, greiðsluaðlögunarúrræði, almenn og sértæk, og síðan sú greiðslujöfnun sem getur falið í sér tiltekna niðurfellingu sem og auðvitað sérstaklega greiðsluaðlögunin ef þróun mála verður slík. Þó að Viðskiptablaðið geri margt gott held ég að það sé oftúlkun á þessum súluritum sem birtast í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að fara með reglustiku á þau og reikna þau út í hlutföllum.

Mínar upplýsingar eru aðrar og ég held að þetta sé ofmat á því hversu mikið t.d. skuldir einstaklinga, og ég tala nú ekki um fasteignalán, voru færð niður í yfirfærslu milli gömlu og nýju bankanna. Ég veit að í öðrum fjármálastofnunum er ekki gert ráð fyrir afskriftum af þessu tagi auk þess sem hv. þingmaður veit vel að þegar menn meta gæði einhverra eignasafna og telja að reikna þurfi með tiltekinni meðaltalsafskriftaþörf, eitthvað af því muni tapast, er það aldrei þannig að nákvæmlega það hlutfall tapist af öllum lánum. Þá er það yfirleitt vegna þess að einhver þeirra tapast alveg en gert er ráð fyrir að önnur innheimtist að fullu. Þetta er m.a. einn vandinn sem aðferðafræði Framsóknarflokksins hefur ekki alveg tekið mið af. Svo verður hinu ekki á móti mælt, það er alveg sama hvernig menn tala um þann hluta, tiltölulega litla hluta t.d. fasteignaveðlána einstaklinga sem liggur í bankakerfinu, að engar slíkar afskriftir hafa átt sér stað í gegnum tilfærslu milli aðila þegar kemur að lánum Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða. Þar liggur stærsti stabbinn af fasteignaveðlánum einstaklinga og þar er það ríkið og við sjálf sem í hlut eigum.