138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

krafa innlánstryggingarsjóðs.

[10:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég er aldeilis gáttaður á svari hæstv. forsætisráðherra. Ég var ekki að spyrja hvernig lögin virka. Ég var að spyrja hvernig þetta virkar efnahagslega á þjóðina til framtíðar. Það er það sem hv. efnahags- og skattanefnd er að fjalla um. Hvernig virkar það, hvernig kemur það út efnahagslega að búið sé að frysta eign innlánstryggingarsjóðs í krónum, hann fær enga vexti, engar verðbætur og engan gengishagnað á þessa eign sína en hann þarf að borga gengisáhættu og gífurlega háa vexti, 80 milljarðar hafa komið á hálfu ári og tikka 100 millj. kr. á dag. Ég var að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig virkar þetta efnahagslega? Ekki hvort það sé lagalega rétt.

Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrir viku að hún væri að láta skoða þetta efnahagslega. Það er það sem hv. efnahags- og skattanefnd verður að hafa í höndum áður en hún getur afgreitt þetta mál út.