138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

samstarf við Færeyinga í aðildarviðræðum við ESB.

[11:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það kemur meira en til greina, við höfum þegar átt samræður við færeyska stjórnmálamenn þar sem við höfum upplýst þá um afstöðu okkar og um gang þessara mála. Fyrir skömmu var utanríkismálanefnd færeyska þingsins stödd hér á Íslandi. Ég held að nokkrir þingmenn hafi átt viðræður við hana en utanríkisráðuneytið og ég áttum sérstakar viðræður við nefndina og þingmennina og upplýstum þá um stöðuna. Ég tel sjálfur að það sé mikilvægt fyrir Færeyinga að fylgjast með þessu máli. Þeir hafa sagt að þeir hafi mikinn vilja til þess og þar hafa þeir sérstaklega beint sjónum sínum að sjávarútvegsmálunum.

Við vitum það auðvitað, Íslendingar, og göngum ekki gruflandi að því að það sem kann að ráða úrslitum um hvort íslenska þjóðin ákveður að ganga inn í Evrópusambandið er sú niðurstaða sem fæst í sjó og fiski. Við höfum mjög svipaða hagsmuni og Færeyingar, reyndar að hluta til eins og Grænlendingar líka því að það er líklegt að sjávarútvegurinn við Grænland verði töluvert öflugur á næstu árum vegna breytinga í hafi sem tengjast loftslagsmálum. Ég hef líka rætt þetta sérstaklega við Grænlendinga, en staðan er sem sagt þannig að þeim stendur til boða að fá allar þær upplýsingar sem við getum veitt þeim og við höfum boðist til þess að veita þeim upplýsingar með reglulegum hætti um þetta.

Ég vek svo eftirtekt á því að ekki síst fyrir tilstilli íslenskra þingmanna eru Færeyingar núna í fyrsta skipti í næstu viku þátttakendur með áheyrnaraðild á fundum þingmannanefndar EFTA, sem var þeim keppikefli, en það voru ekki allir sem það vildu. Það var líka eftirtektarvert, fannst mér, þegar einn íslenskur fjölmiðill sendi mann til Færeyja til þess að kanna stöðuna þar og greindi frá því að það væri mikill áhugi í Færeyjum, m.a. á því að skoða möguleika á því að skipta um mynt og taka upp evru. Það þótti mér merkilegt.