138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

samstarf við Færeyinga í aðildarviðræðum við ESB.

[11:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er orðið undarlegt hversu mikið ég er alltaf sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Ég er henni algjörlega sammála um þessa sameiginlegu hagsmuni. Ég hef reifað þetta sjálfur á fundum með bæði Grænlendingum og Færeyingum. Ég hef reyndar lagt til að einmitt í ljósi framtíðarhagsmuna sem munu vaxa sameiginlega á norðurslóðum og með tilliti til sameiginlegra sjávarútvegshagsmuna reynum við að stilla saman strengi okkar og ég hef á fundum, bæði með grænlenskum stjórnmálamönnum, formanni grænlensku landsstjórnarinnar og sömuleiðis með færeyska lögmanninum, lagt það til að það verði aftur teknir upp reglulegir, árlegir leiðtogafundir þessara þriggja þjóða til þess að stilla saman strengi, sérstaklega á þessum tveimur sviðum.

Það má geta þess að Kubik Kleist er að koma hingað til lands í byrjun næsta árs þar sem þetta verður m.a. rætt og sömuleiðis er ég á förum í upphafi næsta árs til Færeyja og mun reifa þetta mál. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að við eigum að efla samstarf þessara þriggja grannríkja eins og kostur er, (Forseti hringir.) það er í þágu allra þriggja.