138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson o.fl. hafa talað hérna eins og við eigum eitthvert einfalt val í þessum efnum. Vandinn er sá að við eigum það ekki, við getum öll verið sammála um það að við þessar erfiðu aðstæður í okkar samfélagi væri gott að þurfa ekki að hækka skatta, en ástæður eru fyrir því að við getum það ekki. Við getum ekki annað en náð þessum halla niður, annað væri ábyrgðarlaust og við verðum að leita allra færra og sanngjarnra leiða til þess.

Ég er alveg sannfærður um að fólk er tilbúið til að taka á sig byrðar, það skilur að það verður að gerast en þá skiptir öllu máli að menn hafi fyrir því sannfæringu að reynt sé að gera það og útfæra á sem réttlátastan hátt. Það er það sem við stefnum að.

Við erum að endurmeta þörfina fyrir tekjuöflun og það hefur þegar komið fram að við gerum okkur vonir um að hægt sé að draga nokkuð úr þeim áður áformuðu skattahækkunum sem fjárlagafrumvarpið boðaði. Ég fór yfir það hér áðan hvaða ástæður legðust með okkur í þeim efnum, eins og minni vaxtakostnaður, minna atvinnuleysi, jafnvel að sumir tekjustofnar séu að styrkjast á nýjan leik að einhverju leyti, og mögulega að við getum þá dregið svolítið úr aðhaldsþörfinni.

Veruleikinn er sá að skattagrunnurinn á Íslandi undir lok hægri ríkisstjórnartímans var orðinn sá langlægsti á Norðurlöndum. Ef við tökum heildarskatttekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu var Ísland með rétt rúmlega 40% í þeim efnum 2006 eða 2007. Í Noregi og Finnlandi voru þetta tæp 45% og í Svíþjóð og Danmörku tæp 50%. Samt viljum við og ætlum að reyna að byggja hér norrænt velferðarsamfélag. Það er ætlun okkar.

Það stefnir í að þessar heildarskatttekjur opinberra aðila miðað við áformin núna verði um 34% af vergri landsframleiðslu. Þegar menn horfa til þessara hlutfalla er ekki hægt að halda því fram að ganga eigi hér langt í skattlagningu miðað við stöðu þjóðarbúskaparins, þvert á móti. Enda eru auðvitað ekki aðstæður til þess og greiðsluþol er að sjálfsögðu takmarkað.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson spurði um hátekjuskattinn. Já, hann verður að sjálfsögðu felldur inn í heildstæðara skattkerfi. Öðruvísi náum við ekki að dreifa byrðunum og þeir leggi meira af mörkum sem betur eru settir. Það var einn ágallinn á því hvernig menn skildu við skattkerfið hér eftir hrunið, að það var orðið mjög flatt og misskiptingin í íslensku samfélagi hefur aukist gríðarlega, eins og sést á því að 0,8% hjóna í landinu eiga tæp 13% allra hreinna eigna, eignir upp á 468 milljarða kr. Það segir sína sögu um þá gríðarlegu misskiptingu eigna sem hér er orðin í landinu.

Fyrrverandi fjármálaráðherra Árni Mathiesen var með mjög merkilega yfirlýsingu (Forseti hringir.) í viðtali við Viðskiptablaðið í vikunni. Hann sagði að ef það væru einhver mistök sem hann gæti tekið á sig frá fyrri árum væri það að reka ekki ríkissjóð með mun meiri afgangi (Forseti hringir.) í uppsveiflunni þannig að við værum nú betur stödd til að takast á við erfiðleikana en raun ber vitni. Það var ekki gert og m.a. þess vegna er vandi okkar núna eins mikill og raun ber vitni.