138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þessi tillaga um veiðar á skötusel er algerlega einstök og snýr eingöngu að þessari fisktegund. Hún er líka tímabundin þannig að hún rennur út og það þarf þá að setja ný lög um það ef á henni verður framhald með einhverjum hætti þannig að þetta er bráðabirgðaákvæði sem er með sólarlagi. Ég bið menn að vera ekki að túlka þennan þátt. Ég lýsti því vel í ræðu minni að skötuselur er nú í sérstakri útbreiðslu og færist inn á önnur mið á landinu. Þetta er fyrst og fremst tilraunaaðgerð sem þarna er sett í gang sem menn mega ekki draga allt of víðtækar ályktanir af. En markmið frumvarpsins er einnig að hvetja til þess í samræmi við ágæta umræðu sem var um sjávarútvegsmál í vikunni að sá afli sem gert er ráð fyrir og lagt er til að megi veiða á fiskveiðiárinu verði veiddur á því fiskveiðiári sem mælt er fyrir um.