138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:42]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg í efa að sátt verði í öllu þjóðfélaginu um þá fiskveiðistefnu sem flokkur hæstv. ráðherra hefur boðað. Ég sé t.d. ekki fram á að Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn muni samþykkja þá stefnu óbreytta. Ég held að það liggi skýrt fyrir. (Gripið fram í.) Það er ljóst að um þetta allt saman eru mjög skiptar skoðanir og m.a. skiptast menn í hópa varðandi veiðiráðgjöf Hafró. Því spyr ég hvaða ástæður liggja að baki því að ráðherra gengur langt umfram veiðiráðgjöf Hafró við ákvörðun á aflamarki í skötusel sem liggur fyrir. Eru einhver önnur vísindaleg rök þar að baki? Verið er að fara 80% fram úr þeirri ráðgjöf sem þar liggur fyrir og er ég í sjálfu sér ekki að gráta það en ég spyr á móti: Má búast við því að ráðherra treysti sér til að fara fram með sama hætti hvað varðar aðrar tegundir (Forseti hringir.) en skötusel og vinna gegn ráðgjöf Hafró í þessum efnum?