138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi heimildir fyrir skötusel verð ég að benda á að þarna er heimild allt að 2.000 tonnum þannig að það kemur þá í ljós á hvaða bili það mun liggja. Ég vil líka benda á, eins og kom fram í máli mínu, að skötuselurinn er í mikilli útbreiðslu í kringum landið. Mér er kunnugt um að það var ekki að öllu leyti tekið inn í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. En þegar endanlega hefur verið gengið frá því í reglugerð hver úthlutunin þarna verður og hvernig að henni verður staðið verður að sjálfsögðu tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem nauðsynlegt er að gera í því sambandi.

Þetta er því mjög sérstætt varðandi skötuselinn. En ég legg áherslu á að þær breytingar sem (Gripið fram í.) verið er að leggja til eru fyrst og fremst (Gripið fram í.) til þess að sá fiskur sem ætlast er til samkvæmt ráðgjöf og ákvörðun ráðherra að sé veiddur innan fiskveiðiársins komi líka innan fiskveiðiársins á þeim tíma. (Gripið fram í: … sjálfbærni, klára þetta bara á tveimur árum … ekkert að deila um það.)