138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það var nú aldrei við því að búast að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson yrði mjög áhugasamur um þetta frumvarp eða innihald þess enda hefur málflutningur hans sýnt það og hans fyrri störf í sjávarútvegsráðuneytinu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Mig langar til að koma hér inn á nokkur atriði sem hann talaði um í ræðu sinni, m.a. það að verið væri að taka fram fyrir hendurnar á nefnd sem skipuð hefur verið til þess að endurskoða sjávarútvegskerfið og vinna tillögur í þeim efnum. Þetta er algjörlega rangt hjá hv. þingmanni. Þetta frumvarp snýr að einstökum þáttum, það snýr að því að koma sem mestum afla að landi. Mig langar að benda á ákveðna þætti í frumvarpinu þar sem m.a. er fjallað um það að draga úr heimild til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% niður í 15%. Hv. þingmaður kom hér með rök fyrir því af hverju svona mikið hefði verið geymt, 7.000 tonn í ýsu. Ég veit ekki betur en að flokksbróðir hans hafi verið að mælast til þess fyrr í vikunni að afli í ýsu yrði aukinn. Ég vil benda á að áætlað eru þetta um 15.000 tonn sem voru geymd milli ára og miðað er við tölur frá Fiskistofu, þó svo að við áætlum það kannski varlega, þetta eru kannski ekki nákvæmir útreikningar, en þá eru þetta um þrír milljarðar. Hvað skötuselinn varðar er það einn milljarður til. Er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mótfallinn því að gera þessar breytingar eða ekki?