138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

niðurstaða Icesave-samninganna.

[15:06]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Menn geta vissulega haft ólíkar skoðanir á þeim samningum sem við höfum nú náð um Icesave-málið og ég fer ekkert í launkofa með það að mér þótti í upphafi þessa máls, þegar þeir samningar komu fyrir þing í júnímánuði, málið ekki alveg nægilega skýrt. Mér þótti mikilvægt að binda betur um ýmsa hnúta. Eins og ég rakti í ræðu minni við 1. umr. þess máls fannst mér mjög mikilvægt að skýrt kæmi fram að tekið væri tillit til hinnar sérstöku aðstöðu sem Ísland var í vegna þessa máls sem ég held að hafi náðst að gera með aðkomu Alþingis með góðri nefndarvinnu í sumar, og með annarri samningaumferð held ég að náðst hafi fullkomlega ásættanlegur árangur hvað þetta allt saman varðar. Við höfum náð viðurkenningu á því að ekki verði greitt af þessum skuldbindingum verði okkur sem þjóð um megn að standa undir þeim og við höfum tryggt það að nágrannaríkin viðurkenna tilvist vafa um þá skuldbindingu sem að baki liggur sem er mikill pólitískur ávinningur og lá ekki fyrir þegar við fórum yfir þetta mál í fyrrahaust. Þá er ég að vísa til tilvísunar um ágreining um skyldu til greiðslu sem er að finna í hinni sameiginlegu yfirlýsingu fjármálaráðherranna sem ég held að sé mjög mikils virði fyrir okkur sem þjóð að hafa fengið.